Spurt og svarað: Tannlækningar

Rammasamningur SÍ um tannlækningar fyrir aldraða og öryrkja.

Til hvaða einstaklinga nær rammasamningur SÍ um tannlækningar fyrir aldraða og öryrkja ?

 • Samningurinn nær til einstaklinga sem eru 67 ára og eldri, svo og til einstaklinga sem eru með 75% örorkumat hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Þeir sem eru á endurhæfingarlífeyri njóta sömu réttinda. Sama rétt og aldraðir eiga þeir 60–66 ára sem njóta óskerts ellilífeyris frá Trygginga­stofnun ríkisins. 

Hversu mikil er greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands.

 • Fyrir hvern og einn verður almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna kostnaðar við tannlækningar skv. samningnum 57% af umsömdu verði. (Sjá gjaldskrá)

 • Í ákveðnum tilvikum, s.s. vegna slysa og sjúkdóma, getur greiðsluþátttaka orðið hærri, en mögulega lægri í öðrum tilvikum, svo sem vegna tannplanta og krónugerðar. Vegna öryrkja og aldraðra sem eru langveikir og dveljast á stofnun greiða SÍ 100% af umsömdu verði. Sama gildir fyrir andlega þroskahamlaða einstaklinga 18 ára og eldri (sem búa utan stofnunar), þó með þeim fyrirvara að áður en til greiðslu kemur þarf að sækja sérstaklega um hana..

Þarf ég að hafa skráðan heimilistannlækni til að nýta mér endurgreiðslur SÍ ?

 • Já – allir þurfa að vera skráðir hjá tannlækni.
 • Skráning hjá ákveðnum tannlækni kemur ekki í veg fyrir að þú getir leitað til annars tannlæknis.
 • Þú getur skráð þig í Réttindagátt SÍ
 • Einnig getur tannlæknir annast skráninguna (t.d. þegar tími er pantaður).
 • Einstaklingar sem fóru til ákveðins tannlæknis eftir janúar 2017 eru nú þegar skráðir hjá honum.
 • Í Réttindagátt SÍ getur þú séð hjá hvaða tannlækni þú ert skráð/-ur og breytt skráningunni þegar þú vilt.

Hvað fellur undir greiðsluþátttöku SÍ ?

 • Almennar tannlækningar, svo sem skoðun, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi.
 • Upp í kostnað við tannplanta og föst tanngervi er veittur allt að 60 þúsund kr. styrkur (80 þúsund kr. fyrir langveika sem búa á stofnun) á hverju tólf mánaða tímabili.

Hvað fæ ég mikið greitt og hvernig fer greiðslan fram ?

 • Almennt er greiðslan 57% af verði tannlæknis, sbr. gjaldskrá SÍ.
 • Einstaklingur greiðir tannlækni mismuninn. Tannlæknirinn rukkar svo SÍ um hluta sjúkratrygginga.
 • Almenn tannlæknaþjónusta er án kostnaðar fyrir langveika einstaklinga á stofnunum.
 • Ef um fæðingargalla, slys eða sjúkdóm er að ræða þarf tannlæknir að senda SÍ umsókn áður en meðferð hefst. Ef umsókn er samþykkt greiða sjúkratryggingar 80% af verði skv. gjaldskrá SÍ en einstaklingur greiðir tannlækni þau 20% sem upp á vantar.
 • Ef aldraður eða öryrki verður fyrir tanntjóni í vinnuslysi/við heimilisstörf, og bótaskylda SÍ hefur verið samþykkt, greiða sjúkratryggingar að fullu þá tannlæknismeðferð sem nauðsynleg er vegna slyssins.

Fæ ég sömu greiðslu ef ég fer til tannlæknis utan Íslands ?

 • Já, ef tannlæknirinn er starfandi á Evrópska efnahagssvæðinu er greiðsluþátttakan í formi endurgreiðslu hin sama og ef meðferðin hefði farið fram á Íslandi. Með útfyllti umsókn þurfa eftirfarandi gögn að fylgja með: viðurkenndur reikningur úr bókhaldskerfi þjónustuveitanda, nákvæm sundurliðun á unnum verkum þ.m.t. númer tanna sem voru meðhöndlaðar og heiti flata ef um viðgerð/fyllingu er að ræða, greiðslustaðfesting, röntgenmynd (ef slík var tekin) og flugmiðar báðar leiðir. Passa þarf að sundurliðun verka innihaldi dagsetningu hvers verks fyrir sig.

  Hægt er að skila gögnum inn til Alþjóðadeildar rafrænt í gegnum Réttindagátt - mínar síður inn á www.sjukra.is eða með því að senda tölvupóst á [email protected] Einnig er hægt að skila í þjónustuver að Vínlandsleið 16 í Grafarholtinu.

Hver er endurgreiðslan fyrir heilgóma ?

 • Fyrir hefðbundið heilgómasett greiða Sjúkratryggingar Íslands 57% (100% fyrir langveika) af verði gjaldliðar 702  og 57% (100% fyrir langveika) af tannsmíðakostnaði.
 • Ef smíða á heilgóm á tannplanta í neðri gómi þá greiða SÍ 57% (100% fyrir langveika) af verði tveggja tannplanta, en af verði allt að fjögurra tannplanta ef um efri góm er að ræða. Þó þarf tannlæknir að sækja um þessar greiðslur áður en meðferð fer fram.
 • Fyrir heilgóm sem smíðaður er á tannplanta greiða Sjúkratryggingar Íslands 57% (100% fyrir langveika) af verði gjaldliðar 715 og 57% (100% fyrir langveika) af tannsmíðakostnaði. Ef farið er í kostnaðarsamari meðferð, svo sem brúarsmíði í stað heilgóms á tannplanta verður hinn sjúkratryggði að standa undir viðbótarkostnaðinum.

Hvað fæ ég endurgreitt ef ég þarf tannplanta og krónu?

 • Aldraðir og öryrkjar eiga rétt á styrk allt að 60 þúsund kr. (80 þúsund kr. fyrir langveika)  vegna tannplanta og krónugerðar á hverju tólf mánaða tímabili. 

Hvað greiði ég fyrir tannréttingar núna ?

 • Þú greiðir það sama og áður því samningurinn nær ekki til tannréttinga.

Hvar finn ég upplýsingar um verð og greiðsluþátttöku vegna tannlækninga ?

 • Gjaldskrá SÍ vegna rammasamnings SÍ um tannlækningar aldraðra og öryrkja má finna hér.

Þarf ég tilvísun til sérfræðings ?

 • Nei

Fæ ég sömu niðurgreiðslu ef ég fer til sérfræðilæknis t.d kjálkaskurðlæknis ?

 • Sérfræðingar hafa heimild til að leggja allt að 20% álag á meðferð sem fellur undir þeirra sérsvið.
 • Greiðsluþátttaka SÍ verður 57% (100% ) af heildarverði.

Hvernig veit ég hvort tannlæknirinn minn hefur skrifað undir nýjan rammasamning ?

 • Flestir tannlæknar eiga aðild að rammsamningnum, en þú getur séð það inn á réttindagátt 

Fá almennir 18-66 ára eitthvað niðurgreitt núna ?

 • Nei samningurinn nær aðeins til aldraðra og öryrkja.

Hvernig veit ég hvað Sjúkratryggingar Íslands greiða upp í tannlæknakostnað minn ?

 • Tannlæknir þinn leggur mat á hvaða meðferð þú þarft og getur kannað greiðsluþátttöku SÍ með því að senda rafræna fyrirspurn í tölvukerfi SÍ

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica