Spurt og svarað: Sjúkradagpeningar

Hvað eru sjúkradagpeningar?

Sjúkratryggingar Íslands greiða sjúkradagpeninga ef sjúkratryggður einstaklingur, 16 ára eða eldri, verður ófær um að vinna og fær hvorki elli- eða örorkulífeyri. Sjúkradagpeningar eru einungis greiddir til fólks sem er óvinnufært vegna veikinda sinna og fær þess vegna engin laun.

Hvernig sæki ég um sjúkradagpeninga?

Fylla þarf út "Umsókn um sjúkradagpeninga" og skila inn til þjónustumiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands. Skila þarf inn vottorði vinnuveitanda þar sem fram kemur síðasti vinnudagur, starfshlutfall og hvenær launatekjur falla niður. Eyðublað vottorðs fylgir fyrrgreindu umsóknareyðublaði.

Skila þarf inn sjúkradagpeningavottorði frá lækni sem vottar að einstaklingur sé óvinnufær.

Námsmaður þarf að skila inn skólavottorði vegna forfalla frá námi vegna veikinda sem verða til þess að einstaklingur getur ekki lokið áfanga eða prófi. Ef námsmenn geta lokið önn en komast ekki til sumarvinnu vegna veikinda eru dagpeningar greiddir frá því að skóla lauk.

Heimavinnandi einstaklingar geta sótt um dagpeninga sé vottað að einstaklingur geti ekki sinnt heimilisstörfum.

Ef einstaklingur er sjálfstætt starfandi, þarf hann að hafa reiknað á sig endurgjald og greitt af því tryggingargjald. Þegar viðkomandi verður tekjulaus vegna veikinda þarf að tilkynna veikindatímabil til skattayfirvalda.

Hver er upphæð sjúkradagpeninga og hvenær eru þeir borgaðir út?

Upphæð sjúkradagpeninga má nálgast hér. Þeir eru greiddir út að jafnaði á 14 daga fresti. Þeir greiðast frá og með 15. veikindadegi, ef veikindi vara 21 dag eða lengur. Greiðsla miðast frá þeim degi sem læknir vottar óvinnufærni.

Hver er munurinn á sjúkradagpeningum og endurhæfingarlífeyri?

Þegar fólk fær sjúkradagpeninga verður það að vera alveg óvinnufært samkvæmt greiningu læknis. Það getur því ekki verið á greiðslum frá vinnuveitanda á meðan, þ.e.a.s. þeir eru ekki tekjutengdir.

Samt sem áður fara sjúkradagpeningar hjá SÍ og sjúkrasjóðir stéttarfélaganna saman.

Endurhæfingarlífeyrir er aftur á móti mun hærri greiðsla og er greidd mánaðarlega. Hann er tekjutengdur og skerðist um ákveðið hlutfall á móti öðrum greiðslum sem einstaklingar hugsanlega hafa. 

Sjúkradagpeningar eru hugsaðir sem stuðningur við einstaklinga þegar þeir eru að ná sér af veikindum eða slysum.

Endurhæfingarlífeyrir er hugsaður í alvarlegri tilfellum og einstaklingum gefið frekara svigrúm til þess að endurhæfa sig inn á vinnumarkaðinn aftur.

Við bendum þó fólki í vafa á að hafa samband við sinn lækni og fá ráðleggingu.Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica