Þjónusta heilsugæslunnar aðlöguð að Covid -19 faraldri

5.6.2020

COVID faraldurinn hafði mikil áhrif á þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Stöðvarnar gerbreyttu sinni þjónustu til að aðlagast aðstæðum og koma til móts við breyttar þarfir sjúklinga eins og fram kemur í meðfylgjandi greiningu Sjúkratrygginga Íslands. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2020 fækkaði komum verulega en á móti fjölgaði símtölum og notkun á Heilsuveru jókst.  

Komur á heilsugæslustöðvar

Í janúar var heildarfjöldi allra koma á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu ríflega 52 þúsund en í mars voru þær tæp 36 þúsund eða 31% færri. Ef borinn er saman komufjöldi milli ára, þá var meðalfjöldi á dag á tímabilinu janúar – apríl 2019 um 2.400. Sá komufjöldi var svipaður í janúar og febrúar 2020 en í mars þegar Covid-19 faraldurinn fór á flug fækkaði komum á dag í rúmlega 1.600 að meðaltali og fór niður í tæplega 1.200 komur á dag í apríl. Á þessum tíma var fólki ráðlagt frá því að koma á heilsugæslustöð en bent á að nota Heilsuveru eða hringja.

Tafla 1 Fjöldi allra koma á heilsugæslustöð


Símtölum fjölgaði gríðarlega frá janúar fram til mars eða um ríflega 90% að meðaltali. Símtölum fækkaði aftur um fimmtung milli mars og apríl, sem líklega má rekja til páskaviku og því færri virkra vinnudaga.*Heilsugæslustöðin Mosfellsumdæmi þurfti að loka um tíma í mars vegna Covid-19 faraldurs.

Símtöl á heilsugæslustöðvar

Mynd 1. Símtöl á heilsugæslustöðvar

Heilsuvera

Áhrif Covid-19 faraldursins sést vel í notkun Heilsuveru en heilbrigðisyfirvöld ráðlögðu almenningi að nýta sér möguleika í Heilsuveru til samskipta við heilsugæsluna. Notkun hennar jókst því verulega ef miðað er við notkun sömu mánaða árið 2019. Heildarfjöldi allra samskipta í Heilsuveru milli ára fór úr 69.015 samskiptum í janúar til apríl árið 2019 í 122.468 samskipti á sama tíma árið 2020 (77% aukning).

Í samræmi við tilmæli til almennings um að stilla komum á heilsugæslustöðvar í hóf í Covid-19 faraldrinum var mikil fækkun á bókunum í Heilsuveru í mars og apríl, bæði miðað við janúar og febrúar og einnig ef bornir eru saman sömu mánuðir 2019.

Tafla 2 Bókanir í Heilsuveru janúar til apríl 2019-2020

Þó svo að bókunum hafi fækkað nýttu skjólstæðingar stöðvanna aðra möguleika Heilsuveru meira en áður. Þannig jókst fjöldi lyfjaendurnýjana að meðaltali um fjórðung frá janúar til mars þótt heldur drægi úr lyfjaendurnýjununum í apríl. Fjöldi lyfjaendurnýjana tvöfaldaðist milli ára í mars.

Tafla 3 Lyfjaendurnýjanir í Heilsuveru janúar til apríl 2019-2020

Mesta aukningin í notkun Heilsuveru var í fyrirspurnum. Þegar Covid-19 faraldurinn var að fara á flug tvöfaldaðist fjöldinn milli mánaða og aukning milli ára er rúmlega þreföld. Heldur dró svo úr fyrirspurnum í apríl.

Tafla 4 Fyrirspurnir í Heilsuveru janúar til apríl 2019-2020

Athyglisvert er að sjá út frá ofangreindum tölum hvernig heilsugæslan gjörbreytti sinni þjónustu og aðlagaðist aðstæðum í Covid-19 faraldrinum.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica