Sjúkratryggingar Íslands sýknaðar af kröfu Klíníkurinnar Ármúla ehf.

30.3.2021

Landsréttur hefur kveðið upp dóm í máli Klíníkurinnar Ármúla ehf:

„Eins og mál þetta liggur fyrir þá tók stefnandi sjálfur ákvörðun um að gera læknisaðgerðir án þess að fyrir lægi hvort greiðsluskylda Sjúkratrygginga Íslands væri fyrir hendi. Tjón sitt telur hann liggja í ólögmætri greiðslusynjun stefnda vegna vangreiddra reikninga af þessu tilefni eins og fyrr er rakið. Sú synjun hafi svo aftur stuðst við ólögmæta synjun stefnda á umsóknum læknanna Magnúsar Hjaltalín og Friðriks Thors sem lýst hefur verið hér að framan.

Tjón stefnanda sem byggt er upp á þessum grundvelli verður með engu móti rakið til framangreindra athafna Sjúkratrygginga Íslands, heldur þvert á móti til þeirrar ákvörðunar stefnanda sjálfs að nýta þjónustu lækna sem ekki voru aðilar að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands. Þá ber að líta til þess að greiðslur Sjúkratrygginga Íslands á grundvelli rammasamningsins eru inntar af hendi beint til viðkomandi lækna en ekki til stefnanda. Af þessu leiðir að ekki er orsakasamhengi milli þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir og hinnar meintu ólögmætu greiðslusynjunar. Aðrar málsástæður stefnanda, þar á meðal að hann eigi rétt á greiðslu reikninganna á þeim grundvelli að synjun um aðild þeirra að rammasamningi hafi verið ógild frá upphafi og um ólögmæta auðgun, eru sama marki brenndar.

Með vísan til þessa ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.“

https://www.landsrettur.is/?PageId=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&Id=17d915e4-979f-4cd2-af85-ddccd1c754da

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica