Ristilspeglanir

Umfang og þróun síðustu ára

31.3.2017

Talsvert hefur verið fjallað um ristilspeglanir og skipulagða hópleit (skimun) fyrir ristilkrabbameini hérlendis og erlendis undanfarin misseri. Síðustu tvo áratugi hefur nýgengi ristils- og endaþarmskrabbameina aukist samhliða auknu aðgengi, betri greiningartækjum og síðast en ekki síst vitundarvakningu meðal almennings um sjúkdóminn. Úgjöld vegna ristilspeglana hafa hækkað og í meðfylgjandi greiningarskýrslu hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) tekið saman gögn frá árinu 2005 til ársins 2015. Hér er skýrslan í heild.

Í skýrslunni kemur fram að SÍ áætla að heildarkostnaður ríkisins vegna ristilspeglana utan stofnana og á dag- og göngudeildum stofnana hafi verið rúmar 349 m.kr. árið 2015. Umfang og útgjöld vegna ristilspeglana hafa vaxið í takt við fjölgun einstaklinga í aldurshópnum 50 ára og eldri. Í samræmi við klínískar leiðbeiningar þá eru einkennalausir einstaklingar almennt að fara einu sinni í ristilspeglun á 11 ára tímabili hjá sérgreinalæknum á samningi við SÍ.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands eru margar framkvæmanlegar leiðir til að útfæra þjónustu við notendur betur en verið hefur. Full ástæða er til að auka kröfur til veitenda þjónustunnar og setja skýr skilyrði og ábendingar fyrir notkun þjónustunnar.  Þannig má tryggja aukna hagkvæmni og skilvirkni.  Með því að bæta gæði og samræma kröfur til veitenda þjónustunnar má tryggja árangursríka upplýsingagjöf til eftirlits með veitendum og árangri þjónustunnar.

Til að tryggja heildstæðni þjónustunnar er, samhliða nýjum og skýrum ábendingum, eftirsóknarvert að koma í veg fyrir hugsanlega óþarfa endurteknar ristilspeglanir, ná betur utan um kostnað ríkisins með breytilegu aldursviðmiði og/eða með því að beina notendum í önnur (ódýrari) þjónustuúrræði og færa dag- og göngudeildarþjónustuna frá innlagnarstofnunum yfir til minni og sérhæfðari starfseininga. SÍ telja það vera eðlilega þróun að einfaldari verk færist frá 3. stigs þjónustuaðilum eins og Landspítala yfir á 2. stig heilbrigðisþjónustunnar, sbr. augasteinsaðgerðir og fleiri aðgerðir sem hægt er að sinna með minni tilkostnaði og án mikillar fyrirhafnar utan stofnana.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica