Nýr samningur um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila

15.1.2020

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa undirritað 43 samninga um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á landinu til næstu tveggja ára en samningslaust var um þjónustu þeirra á árinu 2019. Gerðir voru samhljóða samningar við hvern rekstraraðila hjúkrunar- og/eða dvalarrýma en ekki rammasamningur við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samtök íslenskra sveitarfélaga eins og verið hefur. Samningarnir taka alls til 2.468 hjúkrunar- og dvalarrýma og nema um 32,5 milljörðum króna á ári á verðlagi ársins 2020.

SÍ fagna því að þessir mikilvægu samningar eru í höfn og náðst hafi samkomulag bæði um daglega þjónustu svo og um leiðir til að halda áfram að þróa samstarf aðila til að tryggja sem best aðgengi að góðri, öruggri og hagkvæmri þjónustu fyrir þá sem þurfa á búsetu á hjúkrunarheimili að halda.

Rétt er að benda sérstaklega á tvö atriði í samningunum sem eru til þess fallin að bæta þjónustu og styrkja rekstrargrundvöll heimilanna. Annars vegar náðist samkomulag um reglur um úthlutun úr svokölluðum útlagasjóði en þessi sjóður er í vörslu SÍ og heimilin geta sótt um framlög úr honum vegna sérlega kostnaðarsamrar þjónustu við einstaka íbúa heimilanna, svo sem vegna sjúkraflugs. SÍ telja þetta mjög jákvætt og mikilvægt skref ekki síst fyrir litlu heimilin. Hins vegar voru aðilar sammála um að nýta samningstímann til að meta kostnað hjúkrunarheimila af tilteknum hjálpartækjum sem íbúar heimilanna þarfnast og leitað verður leiða til að fella þennan kostnað undir almenna greiðsluþátttöku SÍ. Með þeirri breytingu yrði réttindastaða einstaklinga sú sama, varðandi þessi hjálpartæki, án tillits til búsetu þeirra auk þess sem rekstrargrundvöllur hjúkrunarheimila yrði tryggari.

Samhliða var gerður samstarfssamningur um fagleg málefni við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann felur meðal annars í sér að á samningstímanum verði raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila greind í samvinnu aðila og þannig undirbúin endurskoðun á rekstrargrundvelli þeirra. Meðal annars verði kannað sérstaklega hvort ástæða sé til að endurskoða dreifingu smæðarálags. Í því tilliti verði skoðað hvaða rekstrarhagræði fylgi því að reka stærri heimili og/eða reka fleiri en eitt heimili í einhvers konar samstarfi, þannig að smæðarálagsgreiðslur þjóni tilgangi sínum að koma til móts við það óhagræði sem felst í rekstri smæstu heimilanna.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica