Nýr samningur um greiningu og endurhæfingu fyrir einstaklinga með vefjagigt

15.1.2021

  • SÍ lógó

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Þraut ehf. hafa gert með sér nýjan samning um þverfaglega greiningu og endurhæfingu fyrir einstaklinga með vefjagigt og tengda sjúkdóma og hefur hann verið staðfestur af heilbrigðisráðherra. Samningurinn er til eins árs og er gerður á grundvelli fjárveitinga til verkefnisins á fjárlögum. Samningurinn byggir í grunninn á fyrri samningi milli SÍ og Þrautar, en Þraut hefur frá árinu 2011 veitt einstaklingum með vefjagigt þverfaglega heilbrigðisþjónustu á grundvelli samninga við SÍ. 

Á fjárlögum ársins 2021 er 15 m.kr. viðbótarfjárveitingu varið til verkefnisins. Verður sú fjárveiting að hluta nýtt til að innleiða endurhæfingarmeðferð fyrir einstaklinga með væga til meðalslæma sjúkdómsmynd vefjagigtar. Þar er um að ræða meðferð sem veitt verður samhliða vinnu og/eða skóla og meðferðar tími þá lengri en í þeirri endurhæfingarmeðferð sem fyrir er hjá Þraut.

Jafnframt verður hluti fjárveitingarinnar nýttur til að fjölga þverfaglegum greiningum með það að markmiði að fækka einstaklingum á biðlista eftir þjónustunni. Þá stendur til að nýta hluta viðbótarfjármagnsins til að auka fræðslu til heilsugæslustöðva og almennings um vefjagigtarsjúkdóma. Með samningnum er bókun þess efnis og verður útfærsla á tilögun fræðslunnar og fræðsluefnis unnin nú í byrjun árs 2021.

Með samningnum verður því þjónusta við einstaklinga með vefjagigtarsjúkdóma aukin á fjölþættan hátt.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica