Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu– umfang þjónustu árið 2016

Skýrsla Greiningardeildar SÍ

21.11.2017

Þann 1. janúar 2017 tók í gildi nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Aðferðarfræðin sem notuð er byggist á að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi stöð þjónar. Til að meta áhrif breyttrar fjármögnunar á gæði, skilvirkni og þjónustu er mikilvægt að skoða stöðu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu fyrir og eftir breytingar. Í þessari greiningarskýrslu hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) tekið saman gögn frá árinu 2016, sem er síðasta árið fyrir breytingar, frá öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem falla undir nýja fjármögnunarlíkanið. Árið 2016 verður notað sem samanburðarár til að meta áhrif breyttrar fjármögnunar.

Fjármögnunarlíkanið metur fjölmarga þætti til að reikna út mánaðarlegar greiðslur til hverrar heilsugæslustöðvar fyrir sig. Vísitölur eru reiknaðar út frá aldri, kyni, sjúkdómsbyrði og lýðfræðilegum einkennum einstaklinga sem skráðir eru á hverja heilsugæslustöð fyrir sig. Greitt er fyrir hlutfall koma á heilsugæslustöð á móti komum í aðra skilgreinda grunnheilbrigðisþjónustu. Dreifireglur eru notaðar til að greiða fyrir skólahjúkrun, túlkaþjónustu og sálfræðiþjónustu. Einnig er greitt fyrir árangur samkvæmt gæðaviðmiðum eftir ákveðinni reiknireglu.

Árið 2016 voru heildarkomur á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins alls 471.036 eða að meðaltali 39.253 komur á mánuði. Flestar komur voru í september mánuði en fæstar í júlí. Ef forsendur fjármögnunarlíkansins hefðu verið notaðar til að fjármagna heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins á árinu 2016 hefði meðalgreiðsla fyrir hverja komu verið 13.162 kr. Það er greiðsla án alls húsnæðiskostnaðar, en greiðslur vegna húsnæðiskostnaðar standa fyrir utan fjármögnunarlíkanið ásamt greiðslum fyrir miðlæga þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og greiðslur fyrir heimahjúkrun.

Fjöldi skráðra einstaklinga á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 7,3% á árinu 2016. Í árslok 2016 voru 14.841 einstaklingar skráðir hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum og 203.449 einstaklingar skráðir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu var 216.878 í lok árs 2016 og má því ætla að alls hafi 1.412 einstaklingar verið skráðir á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins sem ekki eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Allir þættir fjármögnunarlíkansins hafa áhrif á greiðslur til stöðvanna og með því að rýna í þá má sjá hversu ólíkir skjólstæðingar hverrar stöðvar fyrir sig eru. Flest ungbörn voru t.d. á heilsugæslustöðinni í Salahverfi (19%) og Firði (17%) en flestir í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldri, voru á heilsugæslustöðinni í Lágmúla (18%) og í Efstaleiti (16%).

 

Kostnaðarvísitala (reiknuð út frá fjölda skráðra einstaklinga á stöð, aldri þeirra og kyni) og þarfavísitala (reiknuð út frá sjúkdómsbyrði) vega þyngst í fjármögnunarlíkaninu enda um 82,2% af fjármagninu. Kostnaðarvísitalan var hæst í Efstaleiti en lægst í Grafarvogi. Aftur á móti var þarfavísitalan hæst í Efra – Breiðholti en lægst í Glæsibæ.

Félagsþarfavísitala er einnig reiknuð fyrir hverja heilsugæslustöð en hún er byggð á lýðfræðilegum einkennum einstaklinga sem skráðir eru á stöðina. Þær heilsugæslustöðvar sem eru fyrir ofan efra fjórðungsmarkið er félagsvísitalan er reiknuð í hverjum mánuði fá greitt samkvæmt þessari reiknireglu. Í desember 2016 voru Efra – Breiðholt, Mjódd, Miðbær og Hlíðar fyrir ofan efra fjórðungsmarkið. Efra – Breiðholt var með hæstu félagsþarfavísitöluna og fengi rúm 75% af áætluðu fjármagni sem ætlaður er fyrir þennan þátt.

Fjármögnunarlíkanið gerir ráð fyrir að grunnþjónustu við einstaklinga í samlagi heilsugæslustöðvarinnar sé sinnt á heilsugæslustöðinni. Hlutdeild koma til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna (barna-, geð- og hjartalækna), á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi og á Læknavaktina á móti komum á heilsugæslustöð var mjög mismunandi eftir stöðvum. Í desember fóru að meðaltali um 1,7% skráðra einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi, 2,6% á Læknavaktina og 2,3% til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna (barna-, geð- og hjartalækna). Leituðu fæstir skráðra einstaklinga á heilsugæslustöðvunum í Árbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi í þjónustu utan þeirra. Komur á Læknavakt voru flestar frá skráðum einstaklingum á heilsugæslustöðvunum Hvammi, Hamraborg, Mjódd, Sólvangi og Firði.

Ekki var hægt að bera saman stöðvar miðað við gæðaviðmið fjármögnunarlíkansins þar sem gera þurfti breytingar á sjúkraskráarkerfum heilsugæslunnar til að öll gæðaviðmiðin reiknuðust rétt. Einnig voru gæðaviðmiðin kynnt starfsmönnum heilsugæslustöðvanna á haustmánuðum og þar með urðu til ný skráningarviðmið. Má ætla að það taki starfsmenn ákveðinn tíma að tileinka sér ný vinnubrögð í skráningu.

Hér má nálgast skýrsluna í heild: Skýrslan

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica