Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu - samantekt júlí til september 2017 (leiðrétt 31.01.2018)

30.10.2017

Ný heilsugæslustöð opnaði á höfðuborgarsvæðinu þann 8. ágúst sl., heilsugæslustöðin Urðarhvarfi. Alls fjölgaði skráðum á heilsugæslustöðvar um 4.357 á tímabilinu júlí til september. Tveir heimilslæknar sem starfað höfðu sjálfstætt fluttu sig yfir til heilsugæslunnar Urðarhvarfi og má ætla að margir skjólstæðingar þeirra hafi fylgt þeim á nýjan starfsvettvang. Þetta skýrir að öllum líkindum þá aukningu sem varð í heildarfjölda skráðra á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins á tímabilinu. Nokkur breyting varð á fjölda skráðra einstaklinga á öðrum heilsugæslustöðvum í kjölfar þess að Urðarhvarf opnaði, en þó ekki eins mikil og þegar heilsugæslustöðin Höfði opnaði í júní. 

 

Á tímabilinu júlí til september skráðu flestir sig af heilsugæslustöðvum í Grafarvogi, Árbæ, Seltjarnarnesi og Salahverfi. Heilsugæslustöðin Höfða bætir við sig 1.672 skjólstæðingum og ný heilsugæslustöð að Urðarhvarfi byrjar með 3.971 skráningar en er komin með 4.190 í lok september. Í janúar voru skráðir hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum (SSH) 17.933 skjólstæðingar en í byrjun október hafði þeim fækkað um 5.070 þannig að skráðir voru orðnir 12.863.

Markmið nýs fjármögunarkerfis heilsugæslustöðva er að auka gæði og skilvirkni með það að megin markmiði að auka þátt heilsugæslunnar í grunnheilbrigðisþjónustu. Stefnt er að því að heilsugæslustöð sé ávallt fyrsti viðkomustaður einstaklings í heilbrigðiskerfinu. Í nýju kerfi sem heldur utan um greiðslur til heilsugæslustöðva er hægt er að fylgjast 


með fjölda koma skjólstæðinga til heilsugæslunnar. Ef miðað er við heildarfjölda koma á heilsugæslustöðvar árið 2016 sést að fjölgun milli ára á sama tímabili er um 1,6%. Fjöldi koma helgast af fjölda vinnudaga í hverjum mánuði og hversu mikið er sótt á heilsugæslustöðvarnar. Þannig sést aukning þegar tímabil inflúensu og vetrarpesta er í algleymingi en færri komur þegar margir eru í fríum eins og kringum páska og yfir sumarmánuðina. Heilsugæslustöðvar fá sérstaklega umbunað fyrir það sem kallað er hlutdeild. Þar er átt við það hlutfall skjólstæðinga sem sækir grunnheilbrigðisþjónustu á sína heilsugæslustöð fremur en á Læknavakt, Bráðamóttöku eða til sérfræðilækna. Greiðslur til heilsugæslustöðva eru því hærri eftir því sem fleiri sækja grunnheilbrigðisþjónustu beint á þá heilsugæslustöð sem viðkomandi er skráður á. Í september liggja flestar stöðvarnar á milli 65% og 75% í hlutdeild en fjórar stöðvar eru neðar, Hvammur með 64,5%, Mjódd með 62,9%, Hamraborg með 62,8% og Urðarhvarf með 56,6%. Höfði sem hóf rekstur í byrjun júní er með hæstu hlutdeildina eða 75,3%. 

Þeir þættir sem vega þyngst í greiðslum til heilsugæslustöðva samkvæmt fjármögnunarlíkaninu eru fjöldi skráðra á stöð, aldursdreifing þeirra (kostnaðarvísitala) og sjúkdómsbyrði þeirra skjólstæðinga sem skráðir eru á viðkomandi heilsugæslustöð (þarfavísitala). Kostnaðarvísitala tekur mið af fjölda einstaklinga skráðum á stöð af ákveðnu kyni og aldursbili. Meðaleinstaklingur fær þyngdina 1,0, mjög ung börn og eldri borgarar fá tölu hærra en 1,0 en einstaklingur á miðjum aldri fær tölu undir 1,0. Það má því t.d. gera ráð fyrir að skjólstæðingar heilsugæslustöðvarinnar í Efstaleiti sem er með kostnaðarvísitölu 1,14 og heilsugæslustöðvarinnar í Lágmúla með kostnaðarvísitölu 1,09 séu margir eldri borgarar. 

Þarfavísitala eða stuðull fyrir sjúkdómsbyrði á að vera lýsandi fyrir hversu margir einstaklingar sem skráðir eru á stöð eru með langvinna sjúkdóma. Sjö heilsugæslustöðvar eru með sjúkdómsbyrði yfir 1,0 sem bendir til þess að í þýði stöðvanna séu margir með langvinna sjúkdóma. Þessar stöðvar eru Höfði, Efra-Breiðholt, Efstaleiti, Hvammur, Garðabær, Fjörður og Lágmúli. Sjúkdómsbyrði er langsamlega hæst hjá Höfða 1,51, en hún hefur lækkað lítillega frá því í júlí. Væntanlega má skýra þessa háu sjúkdómsbyrði með því að stór hluti skjólstæðinga Höfða eru sjúklingar sem fylgdu sínum lækni af annarri stöð.  Gera má ráð fyrir að þeir sem lítið sækja til heilsugæslunnar og vega létt í sjúkdómsbyrði hafi minni þörf fyrir að breyta skráningu sinni og hafi því ekki fylgt sínum heimilislækni. Reikna má með að með auknum fjölda skráðra breytist þetta hlutfall og sjúkdómsbyrði Höfða verði nær sjúkdómsbyrði annarra heilsugæslustöðva.

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica