Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu 2018 – yfirlit

17.5.2019

Breytt fjármögnun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu tók gildi í ársbyrjun 2017 og hefur fjármögnunarkerfið því verið í notkun í rúm tvö ár. Fjármögnunarkerfið byggir á því að allir sjúkratryggðir einstaklingar með búsetu á höfuðborgarsvæðinu eru skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni. Einstaklingum með lögheimili utan höfuðborgarsvæðis er einnig heimilt að skrá sig á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu en eingöngu er heimilt að vera skráður á eina heilsugæslustöð. 

Verið er að undirbúa innleiðingu samskonar fjármögnunarkerfis fyrir heilsugæslurnar á landsbyggðinni. Í lok árs 2018 var hafin skráning allra sjúkratryggðra einstaklinga í sameiginlegan grunn hjá SÍ. Í þeim tilvikum þar sem einstaklingur var skráður á heilsugæslustöð bæði á á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu (rúmlega 11 þúsund) var önnur skráningin felld niður. Eftir stóðu um 6 þúsund manns sem voru áfram skráðir með heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu en um 5 þúsund héldu sinni skráningu á landsbyggðinni. Þrátt fyrir þessa leiðréttingu fjölgaði skráðum einstaklingum hjá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu um rúmlega 9 þúsund manns milli áranna 2017 og 2018 eða um 4,3%.

Komum á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um tæp 10% milli áranna 2017 og 2018. Komur voru samtals 535.864 árið 2018 miðað við 488.193 árið 2017. Í hverjum mánuði sóttu að meðaltali um 3,2% skráðra einstaklinga þjónustu barna-, hjarta- eða geðlækna (komur til annarra sérgreinalækna eru ekki taldar sérstaklega) og 1,75% sótti þjónustu á bráðamóttöku Landspítala. Árið 2018 sóttu í hverjum mánuði að meðaltali 3% einstaklinga sem skráðir eru á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu þjónustu Læknavaktar.

Fjármagn til heilsugæslustöðva á að endurspegla þann skjólstæðingahóp sem hún sinnir. Þeir sem sækja mest heilsugæsluna eru börn, aldraðir, konur á barneignaaldri (mæðraeftirlit) og langveikir einstaklingar. Vægi þessara hópa er metið með kostnaðar- og þarfavísitölu og um 80% af fjármagni sem ætlað er til heilsugæslunnar er skipt samkvæmt þeim. Greitt er sérstaklega fyrir skólahjúkrun, túlkaþjónustu og sálfræðiþjónustu sem stöðvarnar veita. Einnig var bætt inn í líkanið árið 2018 greiðslum vegna hreyfiseðla. Alls var 10,2% af fjármagni til heilsugæslunnar ráðstafað vegna þessara þátta.

Aðrir þættir sem greitt er fyrir í fjármögnunarlíkaninu beinast að gæðaverkefnum eins og að innleiða Heilsuveru sem gefur skráðum einstaklingum möguleika á lyfjaendurnýjunum, tímabókunum og fyrirspurnum í gegnum netið. Mikilvægt er að hafa umsjón með lyfjanotkun einstaklinga með langvinna sjúkdóma og því er greitt sértaklega fyrir yfirferð lyfjalista hjá öldruðum. Einnig er greitt sérstaklega fyrir átta gæðaviðmið sem beinast aðallega að þáttum sem tengjast lýðheilsu. Of algengt er að heilsugæslustöðvar nái ekki lágmarksgildum fyrir þau gæðaviðmið. Því var eingöngu 60% af fjármagni sem eyrnamerkt var þessum þætti úthlutað eða um 90 milljónum kr. af 150 milljónum. Fyrirhugað er að endurskoða gæðaviðmið fyrir árið 2020 m.a. vegna þessa.

Sjá skýrslu Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu 2018

Fjarmognunarkerfi-hofudborgarsvaedid

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica