Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu

Tölulegar upplýsingar janúar til apríl 2017

6.6.2017

Nýtt fjármögnunarlíkan  var tekið í gagnið fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu í janúar 2017. Eru forsvarsmenn heilsugæslustöðvanna smám saman að átta sig á hvernig nýja kerfið hefur áhrif á greiðslur til stöðvanna og hvernig starfsmenn þurfa að breyta starfsháttum svo greiðslur hverrar heilsugæslustöðvar séu sem réttlátastar.

Aðferðarfræði nýs fjármögnunarlíkans byggir á því að greiðslur til hverrar stöðvar séu í samræmi við notendur hennar. Það er því mikilvægur þáttur í  greiðslukerfinu að réttur fjöldi skjólstæðinga sé skráður á heilsugæslustöðvarnar, auk þess að miklu skiptir að stöðvarnar skrái sjúkdómsgreiningar og lykilþætti í tengslum við lífsstílstengda áhættuþætti. Heildarfjöldi skráðra á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu í desember 2016 var 203.449 manns, en skráðum hafði fjölgað rétt um 2.500 manns í apríl 2017 (Tafla 1.).

Tafla 1. Skráður fjöldi á heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins.

Greiðslur til heilsugæslustöðva eru háðar fjölda skráðra á stöðvarnar og umfangi þjónustu við þá sem þær sinna. Í hverjum mánuði er ákveðinni upphæð skipt eftir fyrirfram ákveðnu líkani og sitja allar stöðvar við sama borð (Mynd 1.).

Mynd 1. Greiðslur í krónum til heilsugæslustöðva, janúar til apríl 2017.

Meðalkostnaður á komu einstaklings gefur vísbendingu um afköst viðkomandi heilsugæslustöðvar, þ.e. hversu mörgum skjólstæðingum hún sinnir fyrir það fjármagn sem veitt er til stöðvarinnar. Samkvæmt samantekt á greiðslum til heilsugæslustöðva í janúar til apríl er meðalkostnaður á komu lægstur hjá heilsugæslustöðinni í Salahverfi, en þar eru greiddar kr. 10.577 fyrir hverja komu skráðra einstaklinga. Heilsugæslan í Mjódd fær hins vegar mest greitt fyrir hverja komu skráðra einstaklinga eða kr. 16.217. Heilsugæslustöðin Sólvangi fær lægsta greiðslu á skráðan einstakling eða kr. 2.079 og heilsugæslustöðin Efstaleiti fær hæstu greiðsluna á skráðan einstakling kr. 2.429 (Mynd 2.). Skýra má misháar meðaltalsgreiðslur út frá ýmsum þáttum í fjármögnunarlíkani heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Mynd 2. Meðalkostnaður SÍ á skráða einstaklinga á stöð til samanburðar við meðalkostnað á komu skráðra á stöð

Fjármögnunarlíkan heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Eitt af megin markmiðum nýs fjármögnunarlíkans er að auka þátt heilsugæslu í grunnheilbrigðisþjónustu. Takmarkið er, að sú heilsugæslustöð sem einstaklingur er skráður á, sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður í heilbrigðisþjónustu. Greitt er samkvæmt líkani sem tekur mið af þjónustuþörf skjólstæðinganna og við mat á greiðslum til heilsugæslustöðva eru tveir þættir sem vega þyngst, kostnaðarvísitala og þarfavísitala. Kostnaðarvísitala byggir á aldri og kyni skjólstæðinga en þarfavísitala tekur mið af sjúkdómsbyrði skjólstæðinga. Ákveðin upphæð er greidd vegna skólahjúkrunar, túlkaþjónustu og sálfræðiþjónustu. Félagsþarfavísitala tekur mið af sjö þáttum, s.s. fjölda atvinnulausra, einstæðra foreldra og nýbúa. Í apríl var heildarfjármagn til þessa málaflokks kr. 1.356.592, og rann megnið af þeirri upphæð til heilsugæslustöðvarinnar í Efra-Breiðholti.

Umbuna á fyrir átta viðmið sem snúa að gæðum þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum. Einkum er sjónum beint að áhættuhópum með því augnamiði að auka eftirfylgd með áhættuþáttum. Þeir þættir sem þarna er átt við eru: Árviss yfirferð lyfjalista, markviss sýklalyfjanotkun við þvagfærasýkingum kvenna, spírómetríumælingar hjá lungnasjúkum, inflúensubólusetningar áhættuhópa, enn fremur skráning blóðþrýstings, reykinga, BMI og HbA1c hjá sykursjúkum.

Haldið er utan um allar komur  til lækna og er umbunað  fyrir komur á heilsugæslustöð, en að sama skapi eru greiðslur lækkaðar ef skjólstæðingur leitar til barna-, geð-, og hjartalækna. Leiti skjólstæðingur á aðra heilsugæslustöð, á Læknavakt eða Bráðamóttöku LSH eru dregnar frá kr. 4.600 fyrir hverja komu. Þegar allar komur skráðra á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu eru skoðaðar sést að nokkur munur er á milli mánaða. Í janúar voru alls ríflega 55.000 komur, 52.500 í febrúar, nærri 60.400 komur í mars, en aðeins um 47.200 í apríl (Tafla 2).

Tafla 2. Komur, janúar til apríl 2017.

Skýringu á þessu má finna í fjölda virkra daga í mánuðunum. Þegar fjöldi vinnudaga er tekinn inn í myndina sést að heldur fjölgar í hópi þeirra sem leita á heilsugæsluna almennt (Tafla 3.). Í apríl leita óvenjumargir á Læknavakt og á Bráðavakt, enda 14 frídagar í mánuðinum.

Tafla 3. Fjöldi koma ef mið er tekið af fjölda virkra daga í mánuði, janúar til apríl 2017.

Heildarfjöldi koma samsvarar því að 26,2% þeirra sem skráðir voru á heilsugæslustöðvar hafi farið einu sinni til læknis á tímabilinu janúar til apríl 2017. Ef skoðað er hvernig komur þessara mánaða dreifast hlutfallslega má sjá að að meðaltali leita 66,3% þeirra sem fara til læknis á eigin heilsugæslustöð, en 10,8% fara til barna-, geð-, og hjartalækna. Hér sést að fjöldi virkra daga í apríl skilar 4% fleiri komum á Læknavaktina en í meðalmánuði (Tafla 4.).

Tafla 4. Komur sem hlutfall af heildarkomum, janúar til apríl 2017.

Svo virðist sem skjólstæðingar heilsugæslustöðva sem eru staðsettar nálægt Læknavaktinni  sæki oftar á Læknavakt en skjólstæðingar heilsugæslustöðva sem staðsettar eru lengra frá. Í mars voru skjólstæðingar á Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ hliðhollastir sinni heilsugæslustöð, en skjólstæðingar Garðabæjar, Mjóddar og Hvamms leituðu oftar á Læknavaktina (Mynd 3.). Þetta ætti að skila sér í hærri greiðslum til stöðva þar sem einstaklingar leita síður út fyrir sína heilsugæslustöð.

Mynd 3. Allar komur á heilsugæslustöðvar í mars 2017

Hlutfallsleg dreifing koma færist lítillega til milli mánaða. Febrúar er mánuður inflúensu og vetrarpesta og þá leita hlutfallslega fleiri á Læknavakt og Bráðamóttöku. Í apríl voru einungis 16 virkir dagar svo færri komust að á heilsugæslustöðvum og leita því á Læknavakt og Bráðamóttöku LSH (Mynd 4.).

Mynd 4. Hlutfall mismunandi koma janúar til apríl 2017

Skoðaðar voru meðaltalstölur frá janúar til apríl á hlutfalli þeirra sem leita á Læknavakt frá ákveðinni heilsugæslustöð af heildarfjölda sem leita á Læknavaktina. Þarna sést að 10,8% allra sem leita á Læknavaktina eru frá Heilsugæslustöðinni Sólvangi, en 8,5% allra skráðra á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu eru skráðir þar, sbr. töflu 1. Hlutfallslega fleiri frá heilsugæslustöðvunum Firði, Garðabæ, Hamraborg, Hvammi og Mjódd leita einnig á Læknavaktina (Mynd 5.).

Mynd 5. Hlutfall allra koma á Læknavakt. Meðaltalstölur janúar til apríl 2017

Gæðaviðmiðin átta sem auka eiga eftirlit með áhættuhópum fara rólega af stað, þar sem nokkurn tíma mun taka að ná settum viðmiðum. Greitt hefur verið fyrir fjögur viðmið á fyrstu þremur mánuðum ársins en aðeins ein heilsugæslustöð fékk greitt fyrir fimm gæðaviðmið. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort skilvirkni heilsugæslustöðva muni breytast með breyttum áherslum í nýju fjármögnunarkerfi.

Á næstu mánuðum munu bætast við tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðið. Fjármögnun þeirra verður með sama hætti og þeirra stöðva sem fyrir eru.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica