Gengið frá fyrsta heildstæða rammasamningnum við hjúkrunarheimilin

Umfangsmesti samningur í íslenskri heilbrigðisþjónustu

21.10.2016

Í dag hefur verið gengið frá fyrsta heildstæða samningnum um þjónustu hjúkrunarheimila hér á landi. Hingað til hafa flest hjúkrunarheimilin verið rekin fyrir daggjöld sem ríkið hefur lagt til án samnings við heimilin.

Samningurinn er í formi rammasamnings sem hjúkrunarheimili gerast aðilar að og tekur hann gildi 1. október 2016. Samningurinn er sá stærsti sem Sjúkratryggingar Íslands hafa undirritað, en gert er ráð fyrir að alls 46 hjúkrunarheimili gerist aðilar að samningnum með 2.516 hjúkrunar- og dvalarrými. Meðal þeirra hjúkrunarheimila sem mun að öllum líkindum gerast aðili að samningnum er hjúkrunarheimilið Grund sem hefur verið starfrækt í 94 ár. Grund er elsta hjúkrunarheimili landsins og hefur aldrei áður verið með samning um þjónustuna sem þar er veitt.  Hér er því um að ræða mikilvæg tímamót fyrir bæði veitendur og notendur þjónustunnar.

Samninganefndir Sjúkratrygginga Íslands, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga hófu viðræður í byrjun árs 2015 þegar lög nr. 112/2008 um sjúkratryggingar tóku að fullu gildi. Hins vegar var það ekki fyrr en með breytingum á lögunum þann 1. janúar 2016 sem Sjúkratryggingar Íslands fengu heimild til að semja um heildstæða þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum við hjúkrunarheimilin.

Með samningnum er verið að styrkja grunnstoðir þjónustu hjúkrunarheimila með það að markmiði að tryggja íbúum einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga þjónustu. Einnig tryggir samningurinn aukið gegnsæi og samræmi í greiðslum fyrir veitta þjónustu. Nýr samningur gerir kröfur um nákvæma skráningu í svokallaðan RAI-gagnagrunn. RAI-gagnagrunnurinn sýnir hjúkrunarþyngd og raunverulegan aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum. Á þeim grunni munu greiðslur til heimilanna taka tillit til breytilegrar hjúkrunarþyngdar.  Með samningnum skapast auk þess grundvöllur fyrir betra eftirlit með þjónustunni.

Aðilar leggja áherslu á gott samstarf og verða samhliða samningum starfandi samstarfsnefnd og fagnefnd.  Auk þess verða skipaðir starfshópar sem munu m.a. skoða húsnæðismál hjúkrunarheimila, yfirfara rekstrarlíkan heimilanna og endurskoða forsendur RAI mats.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu,  Sjúkratryggingar Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica