Dagdvöl aldraðra. Umfang og greiðslur 2016

30.5.2017

Sjúkratryggingar Íslands hafa tekið saman greiningarskýrslu á umfangi veittrar þjónustu í dagdvöl aldraðra fyrir árið 2016. Upplýsingarnar sem koma fram í þessari skýrslu hafa ekki verið birtar áður opinberlega.

Frá 1. janúar 2016 tóku Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) við framkvæmd greiðslna af Tryggingastofnun ríkisins (TR) til veitenda þjónustu dagdvalarrýma. Velferðarráðuneytið sér áfram um forgangsröðun dagdvalarrýma og stefnumótun í málaflokknum og eru því allar ákvarðanir um fjölda dagdvalarrýma, tegund þeirra og staðsetningu í höndum ráðuneytisins.

Almennt í lögum um málefni aldraða er þjónusta í dagdvöl skilgreind sem stuðningsúrræði fyrir aldraða en undantekning er á því s.s fyrir einstaklinga sem greinast með heilabilun fyrir 67 ára aldur og fyrir einstaklinga með langvinna sjúkdóma og/eða fatlanir og þurfa sérhæfða þjónustu.

Á árinu 2016 sóttu um 4,5% íbúa, 67 ára og eldri, þjónustu dagdvalar og voru flestir þeirra á aldrinum 80-89 ára eða um 52% allra notenda. Heildarfjöldi einstaklinga sem sótti dagdvöl á árinu 2016 voru alls 1.884 og komur alls 174.107, eða að meðtaltali 92,4 komur á hvern einstakling. Notendur dagdvalar greiða gjald fyrir hverja komu og ætla má að heildargreiðslur notenda hafi verið um 189 m.kr. á árinu 2016, sem eru rúmar 100 þús. krónur að meðaltali á hvern notanda á ársgrundvelli.

Á árinu 2016 voru heildargreiðslur SÍ vegna dagdvalar alls 1.576.614.613 kr. sem er 95,6% nýting greiðsluheimilda og alls 168 m.kr. undir fjárheimildum fjárlaga það ár. Með 98% nýtingu fjárheimilda væri hægt að fjölga dagdvalarrýmum um allt að 112 rými á ársgrundvelli og þar með koma til móts við eftirspurn eftir þjónustunni á höfuðborgarsvæðinu.

Dagdvalarrýmum hefur almennt verið að fjölga í samræmi við reiknaða þörf á höfuðborgarsvæðinu en ekki í öðrum heilbrigðisumdæmum. Fjölgun dagdvalarrýma hefur jafnframt ekki verið í sama mæli og fjölgun íbúa 67 ára og eldri. Mikilvægt er því að ítarleg greining verði gerð bæði á framboði og eftirspurn eftir þjónustunni ásamt ólíkum þörfum og þjónustuþyngd notenda.

Enginn samningur hefur verið um þjónustu í dagdvalarrýmum og kröfur til hennar eru óskýrar að mati bæði notenda og veitenda þjónustunnar. Að mati SÍ eru ýmsar leiðir til að bæta nýtingu fjármuna m.a. með skýrum ákvæðum í samningi og kröfum til veitenda þjónustunnar ásamt hagkvæmari dreifingu rýmaheimilda.

Hér er skýrslan.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica