Ársskýrsla og staðtölur Sjúkratrygginga 2016

13.9.2017

Ársskýrsla og staðtölur Sjúkratrygginga 2016 er komin út. Í skýrslunni má finna upplýsingar um starfsemi Sjúkratrygginga Íslands og Staðtölur sjúkratrygginga, slysatrygginga og sjúklingatryggingar ásamt ársreikningum. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.

Réttindagreiðslur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) fyrir árið 2016 námu 41.118 milljónum kr. sem var 4,9% af heildarútgjöldum ríkisins og 1,7% af vergri lands­­framleiðslu. Útgjöld jukust um 3.123 milljónir frá árinu 2015.

Utgjold_rettindaflokka

Mesta kostnaðarhækkunin í krónum var í lækniskostnaði en hann hækkaði á milli ára um 1.236 m.kr. Þar af hækkaði kostnaður vegna sérgreinalækninga um 730 m.kr.

Kostnaður vegna lyfja með S-merkingu hækkaði um 685 m.kr. milli ára. Á árinu voru innleiddi fleiri ný leyfisskyld lyf en einnig eru áframhaldandi kostnaðaráhrif vegna nýrra lyfja sem samþykkt voru til innleiðingar 2015 og eru enn í innileiðingarfasa.

Hækkun réttindagreiðslna SÍ um 3.123 m.kr. á milli áranna 2015 og 2016 var 8,2%. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 1,7%.

Kostnaðarhlutdeild sjúkratryggðra var mjög breytileg eftir réttindaflokkum, t.d. er engin í kostnaði vegna S-merktra lyfja, nálægt 25% kostnaðarhlutdeild í almennum lyfjum en tæp 42% í sjúkraþjálfun. 

 

Í formála Steingríms Ara Arasonar, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, kemur fram að umfang greiðslna SÍ hafi aukist á árinu 2016 þegar SÍ hafi verið falin umsýsla stórra greiðsluflokka til viðbótar ofangreindum réttindaflokkum. Munar mestu um tilflutning daggjaldagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins en greiðslur SÍ til öldrunarstofnana námu 27,1 milljarði króna. Samtals námu greiðslur SÍ til sjúkratryggðra og þjónustuveitenda um 75,2 milljörðum króna á árinu 2016.

Einnig kemur fram í máli forstjóra að í rekstri SÍ hafi ákveðin skref verið tekin í þá átt að færa aðstoð við notendur til fagfólks utan stofnunarinnar, svo sem viðhald og viðgerðir hjálpartækja.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica