Nauðsynleg meðferð sem ekki er í boði á Íslandi

Sérfræðihópur metur hvort skilyrði um læknismeðferð erlendis séu uppfyllt samanber 8.gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Hópurinn er skipaður 5 sérfræðilæknum og lögfræðingi og er yfirtryggingalæknir formaður nefndarinnar.

Eftirtalin skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að samþykkja greiðslu vegna læknismeðferðar erlendis:

  • að um brýna nauðsyn á læknismeðferð erlendis sé að ræða
  • að ekki sé unnt að veita nauðsynlega hjálp hér á landi
  • að læknismeðferðin sé viðurkennd

Nefndin fundar einu sinni í mánuði. Umsókn ásamt nauðsynlegum upplýsingum þarf að liggja fyrir svo að nefndin geti tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að samþykkja hana. 

Í stað þess að sjúklingur fari í meðferð erlendis geta Sjúkratryggingar Íslands ákveðið að sérgreinalæknar sem starfa erlendis veiti sjúklingi meðferð á sjúkrahúsi hér á landi ef öll nauðsynleg skilyrði eru uppfyllt.

Á listanum hér fyrir neðan má sjá bæði umsóknarfjölda og greiðslur árin 2007-2017. Greiðslur í samantektinni eru flokkaðar eftir sjúkdómsgreiningum.

Listi yfir afgreidd mál árin 2007 - 2017


Ef umsókn um læknismeðferð erlendis hefur verið samþykkt er bent á eftirfarandi:

  • Sjúkratryggingar Íslands greiða fargjald sjúklings frá Íslandi og til þess staðar sem meðferð er fyrirhuguð og til baka aftur. Einnig er endurgreitt fargjald innanlands samkvæmt sérstökum reglum um ferðakostnað innanlands.
  • Ef sjúklingur er yngri en 18 ára er heimilt að greiða ferðastyrk fyrir báða foreldra eða tvo nánustu aðstandendur eftir því sem við á.
  • Sjúkratryggingar Íslands greiða dagpeninga vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar sjúklings utan sjúkrastofnunar svo og uppihaldskostnaðar fylgdarmanns eða fylgdarmanna. Ef um börn er að ræða greiða Sjúkratryggingar Íslands dagpeninga að fullu til annars foreldris en að hálfu til hins. Börn yngri en fjögurra ára fá fjórðung af dagpeningum en þau sem eru á aldrinum fjögurra til ellefu ára fá hálfa dagpeninga.
  • Heimilt er að taka þátt í kostnaði vegna tæknifrjóvgunar para ef ekki er hægt að veita fullnægjandi meðferð hér á landi. Pör taka þátt í kostnaði við meðferð á sama hátt og ef tæknifrjóvgun hefði farið fram á Íslandi. Greiddir eru fullir dagpeningar fyrir annan makann en hálfir fyrir hinn meðan dvalið er utan sjúkrahúss.
  • Ef valin er meðferð á öðrum og dýrari stað en siglinganefnd hefur samþykkt greiða Sjúkratryggingar Íslands eingöngu þann kostnað sem henni hefði borið að greiða fyrir sambærilega þjónustu á ódýrari staðnum.
  • Ef aðstæður eru þannig að heilbrigðisstarfsmaður þarf að fylgja sjúklingi greiða Sjúkratryggingar Íslands ferðastyrk til hans.

Hvert skal senda umsóknir?

Sjúkratryggingar Íslands,
Alþjóðadeild 
Vínlandsleið 16
150 Reykjavík

eða á netfangið: international@sjukra.is 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica