Staðfesting á réttindum - S1 vottorð

S1 vottorð fyrir lífeyrisþega frá Íslandi

Elli- og örorkulífeyrisþegar sem taka upp búsetu í öðru EES/EB landi ber skylda til að skrá sig í viðkomandi búsetuland og sækja um S1 sjúkratryggingavottorðið (E-121) hjá Sjúkratryggingum Íslands til þess að framvísa við skráningu hjá sjúkratryggingastofnun í nýja búsetulandinu, ef búsetuland er innan EES.

Með því að sækja um S1 vottorð verður einstaklingur sjúkratryggður í nýja búsetulandinu og fær alla þá sömu þjónustu og aðrir sjúkratryggðir einstaklingar í því landi. Einstaklingurinn heldur þó einnig áfram að vera sjúkratryggður á Íslandi.

Skilyrði fyrir útgáfu S1 vottorð sem lífeyrisþegi:

 • Lífeyrisþeginn er að fá lífeyrisgreiðslur frá Íslandi og eiga almennt ekki rétt á lífeyrisgreiðslum í búsetulandinu,
 • Ríkisborgari frá EES/EB landi
 • Skráning í búsetulandinu

Lífeyrisþegi sem fær útgefið S1 vottorð getur sótt um slíkt vottorð fyrir maka og börn 17 ára og yngri.  

Ekki er almennt gefið út S1 vottorð milli Norðurlanda.

 

S1 vottorð fyrir aðstandendur sjúkratryggðra einstaklinga á Íslandi

Einstaklingur sem er sjúkratryggður á Íslandi getur sótt um S1 vottorð (E-109) fyrir aðstandendur hans sem eru búsettir í öðru EES/EB landi. Aðstandendur sem falla hér undir eru maki og börn 17 ára og yngri.

Skilyrði fyrir útgáfu S1 vottorð til aðstandenda:

 • Einstaklingur sem sækir um er sjúkratryggður á Íslandi
 • Aðstandendur eiga ekki rétt á sjúkratryggingu í búsetulandinu
 • Aðstandendur eru ríkisborgarar frá EES/EB landi

Ekki er almennt gefið út S1 vottorð milli Norðurlanda.

 

Útsendir starfsmenn í öðru EES/EB landi – sjá einnig atvinna erlendis

Einstaklingur sem sendur er af vinnuveitanda hér á landi til að starfa tímabundið í öðru EES/EB landi getur sótt um að falla áfram undir íslenska almannatryggingakerfið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Tryggingastofnun ríkisins gefur út A1 vottorð til staðfestingar á því að íslensk almannatryggingalöggjöf gildi áfram á útsendingartíma. Á grundvelli þess vottorðs á einstaklingur rétt á því að fá S1 vottorð (E-106) útgefið af Sjúkratryggingum Íslands. Einnig er hægt að sækja um S1 vottorð fyrir maka og börn 17 ára og yngri sem flytjast með einstaklingnum erlendis.

Skilyrði fyrir útgáfu S1 vottorðs:

 • A1 vottorð frá Tryggingastofnun
 • Tryggingagjald greitt á Íslandi/skattgreiðslur á Íslandi frá íslensku fyrirtæki
 • Ríkisborgari frá EES/EB landi

Ekki er almennt gefið út S1 vottorð milli Norðurlanda.


Útsendir starfsmenn utan EES/EB landa og milliríkjasamningur er ekki í gildi - sjá einnig atvinna erlendis

Einstaklingar sem vinna fyrir íslenskt fyrirtæki í landi utan EES/EB og milliríkjasamningur er ekki í gildi fá ekki útgefið S1 vottorð. Þeir sækja um að halda almannatryggingaréttindum sínum á Íslandi og fá þá útgefna Tryggingayfirlýsingu sem gefin er út í 1 ár og hægt að framlengja í 4 ár til viðbótar.

Skilyrði fyrir því að halda almannatryggingaréttindum á Íslandi:

 • Tryggingagjald greitt á Íslandi/skattgreiðslur á Íslandi frá íslensku fyrirtæki
 • Sækja um 4 vikum fyrir brottför
 • Tryggingastofnun ríkisins setur frekari skilyrði
              

Spurt og svarað

Til hvers þarf ég S1 vottorð?

Til að njóta sömu þjónustu og réttinda sem sjúkratryggður einstaklingur í búsetulandinu

Hvernig sæki ég um S1 vottorð?

Sækja þarf um Umsókn um S1 vottorð til Sjúkratrygginga Íslands.

Þeir sem hafa fengið útgefið A1 vottorð frá Tryggingastofnun fá S1 vottorð útgefið.
 

Hvað gildir S1 vottorð lengi?

S1 vottorð er gefið út í 2 ár í senn en þó aldrei lengur en gilt örorkumat.

S1 vottorð sem er útgefið á grundvelli A1 vottorð hefur sama gildistíma og A1 vottorðið.

Athugið að vottorðið tekur ekki gildi fyrr en það hefur verið skráð í búsetulandinu.

 

Hvar skrái ég S1 vottorðið í búsetulandinu?

S1 vottorðið er skráð hjá sjúkratryggingastofnun í búsetulandinu. Stofnunin mun í framhaldinu senda Sjúkratryggingum Íslands staðfestingu á skráningu þess.

Gildir S1 vottorðið líka fyrir maka og börn?

Hægt er að sækja um S1 vottorð fyrir maka og börn 17 ára og yngri.

 

Ef ég ferðast til annarra EES/EB landa?

Einstaklingar með útgefið S1 vottorð eiga rétt á að fá útgefið Evrópskt sjúkratryggingakort frá Sjúkratryggingum Íslands og er það notað á ferðalagi til annarra EES/EB landa.

 

Ef ég flyt aftur heim til Íslands eða til annars lands?

Mikilvægt er að tilkynna Sjúkratryggingum um alla flutninga. Við flutning er S1 vottorð afturkallað en einstaklingur getur sótt um nýtt S1 vottorð miðað við nýtt búsetuland ef einstaklingur uppfyllir ennþá skilyrði fyrir útgáfu vottorðsins.  

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica