Spurt og svarað um greiðsluþátttökukerfi sjúkratryggðra í læknishjálp, þjálfun

 

Hver eru helstu markmiðin með greiðsluþátttöku einstaklinga

Helstu markmiðin eru að verja þá sem mest þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Verja einstaklinga fyrir háum útgjöldum, draga úr útgjöldum barnafjölskyldna og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu.

Hvaða heilbrigðisþjónusta fellur undir greiðsluþátttöku

Undir  kerfið falla greiðslur vegna þjónustu sem veitt er á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Einnig greiðslur vegna þjónustu hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalæknum, sjúkraþjálfum, iðjuþjálfum, talmeinafræðingum og sálfræðingum sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, ásamt rannsóknum, geisla- og myndgreiningum. Enn fremur falla undir greiðsluþátttökukerfið greiðslur fyrir meðferð húðsjúkdóma sem veitt er af öðrum en læknum, samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. 

Hver verða komugjöld í heilsugæslunni og á sjúkrahús?

Komugjöld á heilsugæslu og sjúkrahús er að finna í. (Sjá Hvað á ég að greiða fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu?) Fjárhæðir og gjaldskrá

Hvaða reglur munu gilda um innlögn á sjúkrahús?

Innlögn á sjúkrahús er gjaldfrjáls. 

Hvaða reglur munu gilda um fæðingarþjónustu og mæðravernd?

Fæðingarþjónusta og mæðravernd er gjaldfrjáls.

Hvernig verður fólk varið fyrir miklum útgjöldum?

Tryggt verður að mánaðarlegar greiðslur fólks sem er sjúkratryggt hér á landi fari ekki yfir tiltekið hámark. Þak verður sett á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum. Börn greiða ekkert fyrir komu á heilsugæslu. Þjónusta sérgreinalækna er án endurgjalds fyrir börn ef þau eru með tilvísun, annars er greitt 30% af því sem almennur einstaklingur greiðir fyrir meðferðina. Þjónusta sérgreinalækna við börn yngri en 2ja ára og börn með umönnunarbætur er án endurgjalds, óháð tilvísun.

Hvernig reiknast hámörk á kostnað sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu?

Hámarksgreiðslur verða mismunandi eftir því hvort almennir notendur, öryrkjar, aldraðir eða börn eiga í hlut. 
Tekið verður tillit til greiðslusögu einstaklinga sl. mánuði. Hámarksgreiðsla er sú hámarksupphæð sem þú getur þurft að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu í almanaksmánuði. 

Hvað á ég að greiða fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu?

Gjaldskrá fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu er að finna hér

Eru sömu hámarksgreiðslur fyrir alla ?

Nei, börn, aldraðir og öryrkjar munu greiða minna en aðrir almennir notendur heilbrigðisþjónustu. Um börn með umönnunarmat frá Tryggingastofnun ríkisins gilda sömu reglur um hámarksgreiðslur og gagnvart öðrum börnum. Það á einnig við í þeim undantekningartilvikum sem umönnunarmatið gildir til 20 ára aldurs, þ.e. ungmenni sem eru 18 og 19 ára.

Hverjar verða hámarksgreiðslur almennra notenda?

Greiðslur almenns notanda á 12 mánaða tímabili geta numið að hámarki 77.844 kr. á árinu 2021, en verða þó aldrei hærri en 27.475 kr. á mánuði.  Ef almennur notandi á rétt á hámarksafslætti vegna fyrri greiðslna þegar hann sækir sér heilbrigðisþjónustu  verður hámarksgreiðsla hans 4.579 kr. á mánuði.

Hverjar verða hámarksgreiðslur aldraðra og öryrkja?

Greiðslur lífeyrisþega (aldraðs eða öryrkja) á 12 mánaða tímabili nemur að hámarki 51.898 kr. á árinu 2021, en verða þó aldrei hærri en 18.317 kr. á mánuði. Ef aldraður/öryrki notandi á rétt á hámarksafslætti vegna fyrri greiðslna þegar hann sækir sér heilbrigðisþjónustu verður hámarksgreiðsla hans 3.053 kr. á mánuði.

Hverjar eru hámarksgreiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu barns?

(Eftirfarandi gildir um þjónustu ef leitað er til sérgreinalækna með börn án tilvísunar. Ef þau koma með tilvísun er þjónustan endurgjaldslaus).

Greiðslur vegna barns geta á 12 mánaða tímabili numið að hámarki 51.898 kr. á árinu 2021, en verða þó aldrei hærri en 18.317 kr. á mánuði.  Ef barn á rétt á hámarksafslætti vegna fyrri greiðslna þegar það fær í fyrsta sinn heilbrigðisþjónustu í  greiðsluþátttökukerfi nemur hámarksgreiðsla þess í  3.053 kr. á mánuði.

Börn með sama fjölskyldunúmer teljast sem eitt barn í  greiðsluþátttökukerfinu. Hámarksgreiðsla fjölskyldu vegna heilbrigðisþjónustu fyrir börn að 18 ára aldri verður því samanlögð aldrei hærri en nemur hámarki kostnaðar vegna eins barns. 

Hvernig reiknast greiðsluþátttaka fólks ?

Í hvert sinn sem fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu sem fellur undir greiðsluþátttökukerfið er skoðað hvort greitt hafi verið fyrir heilbrigðisþjónustu sl. mánuði.

Hámarksgreiðsla einstaklings í mánuði árið 2021 er 27.475 kr. hjá almennum greiðendum en 18.317 hjá lífeyrisþegum og börnum. 

Greiðslur vegna heilbrigðisþjónustu fyrnast um mánaðamót sem nemur 1/6 af mánaðarlegri hámarksgreiðslu, þ.e. 4.579 kr. hjá almennum notanda en 3.053 kr. hjá lífeyrisþegum og börnum. 

Einstaklingar, aðrir en lífeyrisþegar og börn, greiða aldrei hærra gjald en 27.475 kr., lífeyrisþegar og börn greiða aldrei meira en 18.317 kr, ef einstaklingur nýtur ekki heilbrigðisþjónustu í 6 mánuði. 

Þegar reiknað er út hvað einstaklingur á að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu hverju sinni er skoðað hversu mikið hann hefur greitt upp í hámarksgreiðslu sína og hver greiðslu staða hans er. Greiðsluþátttaka einstaklinga er reiknuð í gagnagrunni sem Sjúkratryggingar Íslands starfrækja.  Ef kostnaður einstaklings samkvæmt gjaldskrá fyrir þjónustuna nemur samanlagt hærri fjárhæð en mánaðarlegu hámarki einstaklingsins greiða Sjúkratryggingar Íslands mismuninn.

Hvar finn ég dæmi sem sýna hvernig greiðsluþátttökukerfið virkar?

Hér að neðan eru dæmi sem er miðað við verð á árinu 2021

Dæmi:

Jón hefur ekki þurft á heilbrigðisþjónustu að halda í hálft ár. Hann fer í aðgerð á stofu hjá sérgreinalækni og þarf þar að greiða sem nemur mánaðarlegri hámarksgreiðslu, þ.e. 27.475 kr. Síðar í sama mánuði fer hann aftur til læknis og heimsækir líka sjúkraþjálfara en þarf þá ekkert að greiða, þar sem hann var búinn að greiða hámarksgjaldið í mánuðinum.

Í næsta mánuði þarf Jón áfram á þjónustu sjúkraþjálfara að halda. Af því að hann greiddi sem nemur mánaðarlegu hámarksgjaldi í mánuði á undan er afsláttarstofn hans í júní 27.475 kr. að frádreginni mánaðarlegri lágmarksgreiðslu sem er 4.579 kr. Hann greiðir því 4.579 kr. fyrir þjálfunina. Þurfi hann á meiri heilbrigðisþjónustu að halda í sama mánuði greiðir hann ekki fyrir þá þjónustu.

Ef Jón sækir hins vegar enga heilbrigðisþjónustu í þessum mánuði en þarf á þjónustu að halda eftir 2 mánuði, þá er afsláttarstofn hans 27.475 kr. að frádregnum mánaðarlegum lágmörkum (4.579 x 2) og þarf því að greiða að hámarki 9.158 kr. 

Hvernig er dregið úr útgjöldum barnafjölskyldna?

Börn sem eru skráð með sama fjölskyldunúmer hjá Þjóðskrá teljast sem eitt barn í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Hámarksgreiðsla fjölskyldu vegna heilbrigðisþjónustu fyrir börn að 18 ára aldri verður því samanlögð aldrei hærri en nemur hámarki kostnaðar vegna eins barns.

Líkt og áður eru ekki innheimt komugjöld fyrir börn vegna komu á heilsugæslu og til heimilislæknis.

Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna við börn að 18 ára aldri, hafi þau áður fengið formlega tilvísun hjá heilsugæslulækni eða heimilislækni sem starfar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Börn yngri en tveggja ára og öll börn með umönnunarmat fá þjónustu sérgreinalækna gjaldfrjálsa óháð tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni.  

Hvaða reglur gilda um börn með umönnunarmat?

Um börn á aldrinum 0 – 18 ára með umönnunarmat frá Tryggingastofnun ríkisins gilda sömu reglur og eiga við um önnur börn nema hvað ekki er gerð krafa um tilvísun til að fá gjaldfrjálsa þjónustu sérgreinalækna.

Hvaða reglur gilda um ungt fólk á aldrinum 18 – 20 ára með umönnunarmat?

Umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins gildir í ákveðnum tilvikum til 20 ára aldurs. Þegar svo háttar gilda allar sömu reglur og eiga við um börn á aldinum 0 – 18 ára sem eru með umönnunarmat.

Hvernig virka tilvísanir fyrir börn?

Tilvísanir eru liður í þeim markmiðum að draga úr heilbrigðisútgjöldum barnafjölskyldna, gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu og sjá til þess að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi.

Miðað er við að heilsugæslu- eða heimilislæknar sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands, gefi út tilvísun telji þeir að barn sem kemur til þeirra þurfi á sérhæfðri þjónustu að halda á dag- eða göngudeildum sjúkrahúsa eða hjá sjálfstætt starfandi sérgreinalækni. 

Barn með tilvísun þarf ekkert að greiða fyrir þjónustuna. Þetta á jafnt við um þjónustu sérgreinalækna á göngu- og dagdeildum sjúkrahúsa og þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Barn með tilvísun þarf heldur ekki að greiða fyrir rannsóknir, geisla- og myndgreiningar sem viðkomandi sérgreinalæknir telur þörf á í tengslum við greiningu þess og meðferð. 

Barn með tilvísun fyrir þjálfun, þ.e. sjúkra-, iðju-, eða talþjálfun þarf ekki að greiða fyrir þjónustu þessara aðila ef þeir starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Komur barna á slysa- og bráðamóttöku eru þeim að kostnaðarlausu án tilvísunar.

Komur barna yngri en tveggja ára til sérgreinalækna eru án endurgjalds óháð tilvísun.

Þarf tilvísun fyrir hverja heimsókn barns til sérgreinalæknis?

Nei, ekki ef barn hefur fengið tilvísun sem gildir til lengri tíma. Læknir sem gefur út tilvísun ákveður gildistíma hennar í samræmi faglegt mat á heilsufari barnsins. Gildistími tilvísunar getur verið allt að eitt ár og ef um er að ræða börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun allt að tíu ár.

Er óheimilt að leita með barn til sérgreinalæknis án tilvísunar?

Nei, ekki er skylt að vera með tilvísun þegar leitað er með barn til sérgreinalæknis. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá en hún er án endurgjalds ef komið er með tilvísun. Þetta á þó ekki við um börn yngri en 2ja ára, því þau fá þjónustu sérgreinalækna endurgjaldslaust, óháð tilvísun.

Hvað kostar þjónusta sérgreinalæknis við barn sem kemur samkvæmt tilvísun?

Þjónusta sérgreinalæknis við börn sem koma með tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni sem starfar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands er án endurgjalds. 

Hvað kostar þjónusta sérgreinalæknis við barn sem kemur án tilvísunar?

Börn á aldrinum 2ja til 18 ára sem koma til sérgreinalæknis án tilvísunar greiða 1/3 hluta þess gjalds sem aðrir sjúkratryggðir greiða almennt fyrir komuna samkvæmt gjaldskrá. 

Greiðslan verður  þó aldrei hærri en 17.835 kr. á mánuði. Börn yngri en 2ja ára, börn með umönnunarmat og ungt fólk á aldrinum 18 - 20  ára með umönnunarmat greiða ekkert fyrir þjónustuna.

Þarf tilvísun til að fara í þjálfun?

Forsenda fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í sjúkra-, iðju- eða talþjálfun er að til staðar sé tilvísun (beiðni um þjálfun) frá lækni. Undantekning frá þessu er að heimilt er að fara í 6 meðferðir á ári í sjúkraþjálfun án þess að fyrir liggi skrifleg beiðni. Þessi tilvísun þarf ekki að vera frá heimilis- eða heilsugæslulækni. Sérgreinalæknar og aðrir læknar hafa einnig heimild til að gefa út tilvísun í þjálfun. Vegna greiðsluþátttöku í talþjálfun þá þurfa Sjúkratryggingar að samþykkja fyrirfram að skilyrði sem sett eru um greiðsluþátttöku séu uppfyllt.

Hvað greiða börn fyrir þjálfun?

Forsenda fyrir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í þjálfun er að fyrir liggi tilvísun um þjálfun sbr. Þurfa börn tilvísun í þjálfun? Ef tilvísun er til staðar þá greiða börn ekkert fyrir þjálfunina. Undantekning frá þessu er að heimilt er að fara í 6 meðferðir á ári í sjúkraþjálfun án þess að fyrir liggi skrifleg beiðni og í þeim tilvikum greiða börn á aldrinum 2 – 18 ára, 30% af heildarverði meðferðar. Börn með umönnunarbætur og börn undir tveggja ára aldri greiða þó ekkert gjald.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica