Ferðakostnaður

Símatími ferðakostnaðar er á milli 10 og 12 alla daga.

Þetta á við um ferðakostnað vegna tveggja ferða til læknismeðferðar á hverju tólf mánaða tímabili eða vegna ítrekaðra ferða.

Ferðakostnaður er til dæmis greiddur vegna langra ferða, ítrekaðra ferða, ferða heim eftir sjúkraflutning, ferðir foreldra eða nánasta aðstandanda að sækja viðurkennd fræðslunámskeið og vegna bráðatilvika. Þú getur lesið meira um þær ferðir sem Sjúkratryggingar taka þátt í að borga fyrir hér.

Sjúkratryggðir einstaklingar geta átt rétt á gistiþjónustu ef þeir þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna eða sjúkdómsmeðferða. Sjá nánar www.sjukra.is/heilbrigdisthjonusta/sjukrahotel/

Netfang: [email protected]

Hvernig sæki ég um endurgreiðslu?

Sótt er um greiðsluþátttöku áður en ferð er farin, nema um bráðatilvik sé að ræða.

  • Læknir í heimabyggð sækir um ferðakostnaðinn á þar til gerðu eyðublaði. Senda þarf eyðublaðið til umboða hjá sýslumönnum á landsbyggðinni sem áframsenda það til Sjúkratrygginga Íslands ef við á. Það eru því engin gögn send beint til Sjúkratrygginga Íslands, heldur skal leita til umboða hjá sýslumönnum.
  • Sjúklingur eða forráðamaður hans þarf síðan að skila inn til síns umboðs hjá sýslumanni staðfestingu á komu til læknis frá þeim sérfræðingi sem farið var til og kvittunum fyrir fargjaldi.

Við bendum öllum á að lesa vel þær upplýsingar um endurgreiðslur ferðakostnaðar sem eru hér á vefsíðunni áður en sótt er um.

Nauðsynleg gögn

  • Staðfesting læknis á því að vísa hafi þurft sjúklingi til meðferðar utan héraðs þar sem þjónustan er ekki fyrir hendi í heimahéraði. Þá fyllir læknir út eyðublaðið „Staðfesting á nauðsynlegri ferð sjúklings utan heimahéraðs“. Ef ástand viðkomandi er alvarlegt og fellur undir heimild til ítrekaðra ferða þá er notað eyðublaðið „Skýrsla vegna ferðakostnaðar sjúklings innanlands“.
  • Sjúklingar þurfa alltaf að framvísa „Staðfestingu á komu til læknis“ frá sérfræðingnum/meðferðaraðilanum þegar það vitjar endurgreiðslu ásamt kvittunum fyrir fargjaldi. Framvísa þarf farseðlum ef ferð er farin með flugi, ferju, áætlunarbíl eða öðrum almenningsfarartækjum. Hið sama gildir um kvittanir fyrir greiðslu annars kostnaðar, þar á meðal vegna leigu á bifreið, leigubifreiða og fyrir greiðslu vegtolla. Sjúkratryggingar Íslands geta jafnframt beðið umsækjanda um kvittanir fyrir eldsneyti sé eigin bifreið notuð.

Hversu mikið er greitt?

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða 2/3 hluta kostnaðar af fargjaldi með áætlunarferð eða ef eigin bifreið er notuð 2/3 hluta kostnaðar. 

Greiðsluhluti sjúklings er þó aldrei hærri en 1.500 krónur fyrir hverja ferð.

Ef hluti sjúklings fer yfir 10.000 krónur á 12 mánaða tímabili skal greiðsluhluti hans aldrei verða hærri en 500 krónur í hverri ferð það sem eftir er tímabilsins.

Sé um stuttar og ítrekaðar ferðir að ræða vegna alvarlegra sjúkdóma endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 3/4 hluta ferðakostnaðar með leigubifreið ef sjúklingur er ekki fær um að ferðast með áætlunarbifreið eða strætisvagni þó vegalengd sé skemmri en 20 kílómetrar.

Ef eigin bifreið er notuð í slíkum tilvikum endurgreiða SÍ 2/3 hluta kostnaðarins miðað við 34,18 krónur á hvern ekinn kílómetra. Vegna ferða sem farnar eru 1. maí 2022 og síðar er kílómetragjaldið 36,17 krónur á hvern ekinn kílómetra.

Upphæð kílómetragjalds hækkar/lækkar í hlutfalli við akstursgjald ríkisstarfsmanna eins og það birtist í auglýsingum ferðakostnaðarnefndar og tekur því breytingum reglulega.

Greiðsla fyrir fargjald fylgdarmanns

Sé um áætlunarferð að ræða greiða Sjúkratryggingar Íslands fargjald fylgdarmanns ef sjúklingur er yngri en 18 ára eða ekki fær um að ferðast á eigin vegum. Ávallt er greitt fargjald fylgdarmanns með konu sem ferðast til þess að fæða barn. Greiðsluhluti sjúklings í samanlögðum kostnaði vegna ferðar sjúklings og fylgdarmanns er aldrei hærri en 1.500 krónur.

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica