Næring og sérfæði.

Hvaða reglur gilda um næringu og sérfæði?

Hjálpartækjamiðstöð SÍ vinnur eftir reglugerð nr.55/2009 um styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði.  Reglugerðin er sett skv. ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. 

Er næring/sérfæði að fullu niðurgreidd eða er eitthvert kostnaðarhlutfall sem miðað er við?

Greiðsluþátttaka SÍ næringarefni eða sérfæði er ýmist 70%, 90% eða 100%. Fyrir næringu í slöngu (sondunæringu) greiða SÍ það sem er umfram ákveðnar fjárhæðir fyrir hvern mánaðarskammt, þær fjárhæðir taka mið af aldri og hlutfalli orkuþarfar sem umsækjandi fær um slöngu. Sjá nánar í reglugerð .

Hversu löng bið er eftir afgreiðslu og endurnýjun næringarefna?

Ávallt er leitast við því að afgreiða umsóknir eins fljótt og hægt er. Umsóknir um styrki til kaupa á næringarefni eða sérfæði eru að jafnaði afgreiddar samdægurs eða daginn eftir að þær berast ef allar upplýsingar liggja fyrir og ekki þarf að óska eftir viðbótarupplýsingum. Nánar um afgreiðslutíma umsókna hjá Sjúkratryggingum Íslands er að finna hér. 

Hvaða þjónusta stendur til boða varðandi næringu og sérfæði?

Starfsmenn hjálpartækjamiðstöðvar SÍ leitast við að svara spurningum þegar eftir þeim er leitað hvort heldur sem er í síma sem eða tölvupósti.

Hvernig er sótt um næringu eða sérfæði?

Ávallt þarf að liggja fyrir læknisvottorð þegar sótt eru um styrki til kaupa á næringarefni eða sérfæði. Oft eru þegar til fullnægjandi læknisvottorð og í þeim tilfellum er nóg að umsókn komi frá næringarfræðingi/ráðgjafa eða hjúkrunarfræðingi. Í umsókn skal ávallt koma fram mat læknis og/eða næringarráðgjafa eða næringarfræðings á þörf fyrir næringarefni og/eða sérfæði. Enn fremur skal koma fram lýsing á næringarvanda og rökstuðningur fyrir næringarefni og sérfæði. Þegar um er að ræða fyrstu umsókn er umsögn læknis nauðsynleg.

Er þörf á læknisvottorði þegar sótt er um næringu eða sérfæði?

Við fyrstu umsókn þarf að leggja fram vottorð sérfræðings um nauðsyn næringarefnis eða sérfæðis. Ef breyting verður á sjúkdómsástandi/næringarvanda getur þurft nýtt læknisvottorð. Ætíð er krafist nýs læknisvottorðs með umsókn ef ekki er samræmi milli þeirra næringarefna og/eða sérfæðis sem um er sótt og þeirra læknisfræðilegu upplýsinga sem áður hafa borist með umsókn til SÍ.

Hverjir eiga rétt á næringu og sérfæði?

Í 3. gr. reglugerðarinnar um næringu og sérfæði nr. 55/2009 segir: Sjúkratryggðir einstaklingar eiga rétt á styrkjum frá Sjúkratryggingum Íslands til kaupa á næringarefnum og sérfæði. Þeir sem búa á sambýli og eru sjúkratryggðir eiga sama rétt og þeir sem búa á einkaheimilum til styrks til kaupa á næringarefnum og sérfæði. Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki styrki til kaupa á næringarefnum og sérfæði vegna þeirra sem dveljast á sjúkrastofnunum. Hið sama gildir um öldrunarstofnanir, vistheimili, heimili fyrir börn og aðrar sambærilegar stofnanir. Í þeim tilvikum skal viðkomandi sjúkrahús eða stofnun sjá vistmönnum fyrir næringarefnum og sérfæði.

Þarf að sækja um árlega eða er nóg, þegar í hlut eiga einstaklingar með ólæknandi sjúkdóma/fötlun, að sækja um einu sinni?

Þegar Sjúkratryggingar Íslands samþykja styrki til kaupa á lífsnauðsynlegum næringarefnum eða sérfæði eru gefnar út innkaupaheimildir sem gilda eftir atvikum frá sex mánuðum til fimm ára, og er það metið hverju sinni. Almennt er fyrsta umsókn samþykkt í 1 ár. Ef ljóst er að þörfin fyrir næringarefni eða sérfæði kemur ekki til með að breytast er styrkur samþykktur eins lengi og heimilt er skv. reglugerð eða í 5 ár. Kostnaður umsækjanda í næringu um slöngu (sondunæringu) hækkar eftir því sem umsækjandi verður eldri. Styrkir eru þá gjarnan samþykktir til ákveðins aldurs umsækjanda eða að næsta aldursbili. 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica