Um hjálpartæki.

 

Hvaða reglur gilda um úthlutun hjálpartækja ?

Hjálpartækjamiðstöð SÍ vinnur eftir reglugerð um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013

Hverjir eiga rétt á hjálpartækjum frá Hjálpartækjamiðstöð SÍ ?

Þeir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi eiga rétt á styrkjum vegna hjálpartækja skv. reglugerð nr. 1155/2013. Styrkir eru greiddir vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.
Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ.á m. útivist og íþróttir). Þá er ekki veittur styrkur til að kaupa almenn tæki, s.s. heimilistæki, nema þegar um er að ræða aukabúnað eða séraðlögun. Ekki veittur styrkur til að kaupa á tveimur hjálpartækjum sömu gerðar á tvö heimili s.s. þegar foreldrar eru fráskildir eða á heimavist skóla.

Á barn rétt á hjálpartækjum til notkunar í leikskóla/skóla ?

Heimilt er að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til mikið fatlaðra barna og unglinga sem vegna skólagöngu (leikskóla og grunnskóla) eða dvalar á þjálfunar- og dagvistunarstofnunum sem annars yrðu að vera án hjálpartækja sinna daglangt. Hér er helst um að ræða sérhannaða stóla, standgrindur og göngugrindur. 

Er sveigjanleiki í reglum til að bregðast við sérstökum einstaklingsþörfum ?

Starfsmenn Sjúkratrygginga hafa ekki heimild til að fara út fyrir ákvæði reglugerðar við afgreiðslu umsókna. Heilbrigðisráðherra gefur út reglugerðina. Reglugerðin kveður endanlega á um hvaða hjálpartæki er unnt að fá styrk til kaupa á, greiðsluhluta og magn hjálpartækja til sérhvers sjúkratryggðs einstaklings þegar það á við. Innan þess ramma er hver og ein umsókn metin. Sem dæmi má nefna að víða er orðalagið “að jafnaði” notað í reglunum og er það gert m.t.t. þess að hægt sé að mæta sérstökum þörfum. 

Hvernig er sótt um hjálpartæki ?

Í flestum tilfellum sækir heilbrigðisstarfsfólk um hjálpartæki og sendir þá umsókn rafrænt úr Gagnagátt SÍ eða úr Sögu sjúkraskrárkerfi.
Að því tilskyldu að læknisfræðilega upplýsingar séu til um umsækjanda hjá SÍ þá er ekkert því til fyrirstöðu að umsækjandi fylli sjálfur út umsókn af heimasíðu SÍ, prenti hana út, undirriti og komi til Hjálpartækjamiðstöðvar SÍ, Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík. 

Er þörf á læknisvottorði þegar sótt er um hjálpartæki ?

Ekki endilega. Þegar um er að ræða fyrstu umsókn er umsögn heilbrigðisstarfsmanns nauðsynleg (ICD númer og sjúkrasaga skv. sjúkraskrá ). Í tilviki fyrstu umsóknar um meðferðarhjálpartæki (spelkur, gervilimi o.s.frv.) og næringu þarf læknisvottorð.
SÍ geta hins vegar farið fram á að vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis sé lagt fram ef að svo ber undir, það gerist þó sjaldan. Ef breyting verður á sjúkdómsástandi/fötlun getur þurft nýtt vottorð/umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmanns. Ætíð er krafist nýs vottorðs með umsókn ef ekki er samræmi milli þeirra hjálpartækja sem um er sótt og þeirra læknisfræðilegu upplýsinga sem til eru hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Eru öll hjálpartæki í samningi ?

Sjúkratryggingar Íslands bjóða út hjálpartæki í þeim flokkum sem það þykir hagkvæmt.

Þegar um samninga í kjölfar útboðs er að ræða er þátttaka SÍ í kaupum á hjálpartæki háð því að tækið sé fengið hjá tilgreindu samningsbundnu fyrirtæki. Þau hjálpartæki má sjá í vörulistum  á vef SÍ.
Þar sem SÍ hafa ekki gert samninga er leitað tilboða í einstök hjálpartæki og vörur eða gerðar verðkannanir. 

Get ég keypt mér hjálpartæki og fengið þau svo endurgreidd ?

Sækja verður um hjálpartæki áður en þau eru keypt.

Hvernig sé ég hvort umsókn um hjálpartæki hefur verið samþykkt eða henni synjað ? ?

Í  Réttindagátt   sér einstaklingur öll svarbréf frá stofnuninni auk þeirra réttinda sem hann nýtur varðandi hjálpartæki og næringu. Forráðamenn barna fá svarbréf í Réttindagátt sína. Þeir sem skráð hafa netfangið sitt í gáttina fá sendan tölvupóst um að þeirra bíði nýtt bréf í gátt. Sé bréfið ekki opnað í gáttinni innan fjögurra daga fer svarbréfið í póst á lögheimili umsækjanda. Í gáttinni er afgreiðslustaður hjálpartækisins tilgreindur. Ef að línan, sem sýnir hjálpartækið, litast gul eru 60 dagar eftir að heimildinni (á t.d. við um bleiur og blóðstrimla). Í þeim tilfellum þarf að sækja um endurnýjun. 

Sér heilbrigðisstarfsmaðurinn eða seljandinn hvað var samþykkt fyrir mig ?

Heilbrigðisstarfsmaður sem sótti um hjálpartækið fær svarbréf sent í gagnagáttina sína. Seljendur sjá jafnframt í gagnagáttinni þau hjálpartæki sem hafa verið samþykkt frá þeim. 

Hversu löng bið er eftir afgreiðslu og endurnýjun hjálpartækja ?

Umsóknir eru afgreiddar eins fljótt og auðið er. Leitast er við að afgreiða umsóknir innan fimm vikna frá því að fullnægjandi umsókn berst, yfirleitt er biðtíminn þó ekki svo langur. Það getur tafið afgreiðslu mála ef að umsóknin er ekki fullnægjandi og kalla þarf eftir viðbótargögnum. Afgreiðslutíma umsókna hjá Sjúkratryggingum Íslands er að finna á hér.  Leitast er við að afgreiða forgangsmál (vegna þeirra sem eru að útskrifast af sjúkrahúsum) innan þriggja virkra daga frá því að fullnægjandi umsókn berst. 

Hvenær fæ ég afhent hjálpartækið sem var samþykkt ?

Eftir að umsókn hefur verið samþykkt er leitast við að tæki sé tilbúið til afhendingar innan 3ja vikna.
Seljendur stoðtækja leitast við að afgreiða stoðtæki (spelkur, gervilimi og bæklunarskó) innan 5 vikna frá samþykkt, nema þegar um er að ræða fyrsta par af sérsmíðuðum skóm þá getur afhendingartími verið allt að 8 vikur. 

Á ég rétt á styrk til kaupa á hjálpartækjum ef ég bý á sambýli ?

Þeir sem búa á sambýli eiga sama rétt og þeir sem búa á einkaheimilum til einstaklingsbundinna hjálpartækja, svo sem göngutækis, sjúkrarúms og hjálpartækja til að klæðast. Ef um er að ræða tæki sem geta nýst fleiri einstaklingum á sambýlinu, svo sem standbekk, lyftara og baðtæki, er aðeins veittur styrkur vegna eins slíks tækis á sambýlið. Styrkir eru ekki veittir vegna veggfastra tækja og búnaðar á sambýlum, svo sem handfanga, handriða og lyfta. 

Þarf að skila hjálpartækjum þegar flutt er inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili ?

Einstaklingum sem fara til vistunar á stofnunum ber að skila skilaskyldum hjálpartækjum til hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands að undanskildum hjólastólum, göngugrindum og sérstaklega aðlöguðum tjáskiptatækjum. Hjólastólum og göngugrindum er skilað þegar einstaklingar þurfa ekki lengur á þeim að halda. 

Á ég rétt á hjálpartækjum þegar ég bý á dvalar- eða hjúkrunarheimili ?

Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki styrki vegna hjálpartækja, að hjólastólum undanskildum, til þeirra sem vistast á sjúkrastofnunum. Hið sama gildir um öldrunarstofnanir, vistheimili, heimili fyrir börn og aðrar sambærilegar stofnanir. Í þeim tilvikum skal viðkomandi sjúkrahús eða stofnun sjá vistmönnum fyrir öllum hjálpartækjum. 

Hvernig sný ég mér ef ég þarf að endurnýja hjálpartæki ?

Rökstuðningur þarf að berast með umsókn þar sem fram kemur af hverju þörf er á endurnýjun tækis. Gert er ráð fyrir að sá heilbrigðisstarfsmaður sem aðstoðar umsækjanda við umsókn eða umsækjandi sjálfur komi með þessar upplýsingarnar. Ef tæki er álitið það slitið að ekki sé hægt að nota það lengur þarf að fara með tækið í mat á verkstæði .

Hvað geri ég ef hjálpartækið bilar eða skemmist ?

Ef hjálpartæki þarfnast viðgerðar skal hafa samband við viðgerðaverkstæði sem SÍ hefur gert samning við. Á Höfuðborgarsvæðinu eru þessi verkstæði sex. Mismunandi er hvaða tækjum hvert fyrirtæki sinnir, það fer eftir því hvers konar tæki um ræðir og tegund þess. Hér  eru upplýsingar yfir hvert má leita varðandi hjálpartæki sem þarfnast viðgerðar.

Gerðir hafa verið samningar við sex verkstæði víðsvegar um landið. Hér  má finna upplýsingar um verkstæði á landsbyggðinni. 

Hvað geri ég ef að hjálpartæki skemmist í flugi ?

Strax á flugvellinum skal tilkynna um skemmdir á hjálpartækinu. 

Hvert og hvernig skila ég hjálpartækjum ?

Að notkun lokinni ber að skila skilaskildum hjálpartækjum til hjálpartækjamiðstöðvar. Það er gert með því að hafa samband við hjálpartækjamiðstöð í síma 515 0100 eða á [email protected] og óska eftir því að tækin verði sótt. Mikilvægt er að innsendum hjálpartækjum fylgi nafn og kennitala notanda ásamt tilkynningu um að um skil sé að ræða.
Gervilimum og spelkum ber að skila til þeirra stoðtækjafyrirtækja sem smíðað hafa eða útvegað viðkomandi tæki.

Hvaða þjónusta stendur til boða varðandi hjálpartæki ?

Starfsmann hjálpartækjamiðstöðvar Sjúkratrygginga íslands SÍ leitast við að svara spurningum þegar eftir þeim er leitað hvort heldur sem er í síma sem og/eða tölvupósti. Í móttökum barna með fötlun hjá Greiningarstöð ríkisins (GRR), þar sem barn ásamt foreldrum sínum hitta teymi sérfræðinga, kemur fulltrúi frá SÍ þegar fyrirséð er að ráðagjöf þurfi um hjálpartæki eða að ræða þurfi hjálpartækjamál almennt. 

Eru hjálpartæki að fullu niðurgreidd eða er eitthvert kostnaðarhlutfall sem er miðað við ?

Tæknileg hjálpartæki (hjólastólar, göngugrindur o.s.frv.)  greiða SÍ yfirleitt að fullu, helstu undantekningarnar eru dýnur í sjúkrarúmin þar er greiddur styrkur að upphæð 44.000 kr. (sáravarnardýnur eru þó greiddar 100%). Sama er að segja um einnota hjálpartæki, stoð- og meðferðartæki en þar eru þó undantekningar sbr. reglugerð á vefstjórnartíðinda.
Til dæmis þarf að greiða ákveðið hlutfall í bleium, sykursýkisbúnaði og í einhverju tilfellum í spelkum. 

Þarf að sækja um árlega eða er nóg, þegar í hlut eiga einstaklingar með ólæknandi sjúkdóma/fötlun, að sækja um einu sinni ?

Á svarbréfinu eru gildistími samþykktar tilgreindur. Ef um innkaupaheimild er að ræða t.d. fyrir sykursýkisbúnaði vegna barns með sykursýki I þá er innkaupaheimild samþykkt í eins langan tíma og heimilt er skv. reglugerð, í 10 ár. Þegar heimildin rennur út þarf að senda inn nýja umsókn, en það er ekki þörf á læknisvottorði enda augljóst í tilfelli sykursýki I að það breytist ekki. Þegar endurnýja þarf t.d. hjólastól þarf pöntunareyðublað og gátlisti að fylgja umsókn.

Af hverju þarf að fylla út gátlista ?

Á gátlistanum  er spurningum um það hvernig og hvar eigi að nota hjálpartækið. Til dæmis þegar um hjólastól er að ræða þarf að liggja fyrir hvort að notandinn ætlar að sitja í honum í bíl eða ekki o.s.frv. Þær upplýsingar skipta t.d. máli varðandi val á hjólastól, í þeim tilfellum þarf hjólastóllinn að vera árekstrarprófaður. Pöntunareyðublað skipta einnig miklu máli með tilliti til þess hvernig hjólastóllinn á að vera; setbreidd, setdýpt, lengd og gerð fótafjala, arma, þarf teinahlífar o.s.frv.  

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica