Spurt og svarað: Slysamál
Hvað þarf ég að gera þegar ég tilkynni slys til Sjúkratrygginga?
Fylla vel og skilmerkilega út eyðublaðið "Tilkynning um slys". Á tilkynningunni er nauðsynlegt að fá undirskrift vinnuveitanda vegna vinnuslysa. Umsókn skal skila til Sjúkratrygginga Íslands eða umboða. Þá þarf að berast læknisvottorð (áverkavottorð á SÍ formi) vegna slyssins frá þeim lækni eða heilbrigðisstofnun/sjúkrahúsi sem hinn slasaði leitaði fyrst til.
Einnig ef með þarf skal skila inn:
- lögregluskýrslu eða tjónaskýrslu vegna umferðarslysa
- skýrslu vinnueftirlits
Hver er biðtími eftir svari vegna umsóknar um slysabætur?
Reynt er að afgreiða slysamál svo fljótt sem unnt er en almennt er afgreiðslutími frá 2 vikum upp í 4 vikur. Framangreint á við þegar fullnægjandi gögnum vegna umsóknar hefur verið skilað til SÍ.
Hvað er slysaörorka?
Slysaörorka er læknisfræðilegur úrskurður á færnisskerðingu. Örorkan er metin út frá líkamlegum skaða óháð vinnufærni.
Hlutfall örorku:
75% örorka eða meiri
Sé örorka metin 75% eða meiri er greiddur fullur örorkulífeyrir mánaðarlega. Örorkulífeyrir er óháður öðrum tekjum bótaþega.
50-74% örorka
Ef örorka er metin 50% greiðist hálfur örorkulífeyrir og síðan 2% til viðbótar fyrir hvert örorkustig upp að 75% örorku.
10-49% örorka
Ef örorka er metin á bilinu 10-49% er heimilt að greiða örorkubætur í einu lagi, þ.e. sem eingreiðslu. Eingreiðslan jafngildir lífeyri hlutaðeiganda um tiltekið árabil og er reiknuð út samkvæmt reglugerð.
9% eða minni örorka
Ef örorka reynist 9% eða minni greiðast örorkubætur ekki. Ef örorka vegna fleiri slysa nær samanlagt 10% greiðast bætur. Ef slys veldur dauða innan tveggja ára greiðast dánarbætur samkvæmt 35. gr. almannatryggingalaga.