Spurt og svarað: ES kortið

Evrópskasjúkratryggingakortið - ES kortið

Hvernig virkar ES kortið?

Handhafar kortsins borga sama verð fyrir heilbrigðisþjónustu og sjúkratryggðir heimamenn. Tilgangur evrópska sjúkratryggingakortsins er að tryggja sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu og heimamanna samkvæmt þeim reglum sem gilda fyrir þá sem eru sjúkratryggðir hjá opinberum aðilum í því EES landi sem þeir ferðast í.

Hvernig er ég tryggður með ES kortinu?

Kortið tryggir aðeins læknis- og lyfjaþjónustu hjá þeim sem starfa innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis, það er, ríkisrekna heilbrigðisþjónustu í landinu sem viðkomandi ferðast til.

Einstaklingur með ES kort á ekki að greiða meira fyrir læknis- eða lyfjaþjónustu heldur en þeir sem eru tryggðir í almannatryggingakerfi viðkomandi lands.

Kortið gildir ekki ef einstaklingar fara erlendis til þess að leita sér læknisþjónustu, fyrirfram ákveðin meðferð.

Hvernig sæki ég um ES kortið?

Hægt er að sækja hér um evrópskt sjúkratryggingakort inná Réttindagátt – mínar síður (https://rg.sjukra.is/Account/Login.aspx ). Kortið er svo sent á lögheimili umsækjanda.

Nánari upplýsingar er hægt að fá í netfanginu [email protected]  eða í síma 515-0002.  

Hvað geri ég ef ES kortið hefur ekki borist á lögheimili fyrir brottför?

Hægt er að sækja um bráðabirgðavottorð í gegnum réttindagáttina ef ES kortið berst ekki áður en haldið er til útlanda. Þá myndast strax skjal undir flipanum Skjöl - bréf í réttindagátt (https://rg.sjukra.is/Account/Login.aspx ) einstaklings.

Hvað gildir ES kortið í langan tíma?

Almennt gildir kortið í 3 ár en 5 ár fyrir lífeyrisþega og öryrkja.

Hvað gerist ef ég glata kortinu innan þess tíma, get ég þá fengið nýtt?

Áríðandi er að halda vel utan um ES-kortið því ef það glatast þá er ekki hægt að panta nýtt fyrr en 6 mánuðir eru eftir af gildistíma kortsins. Ávallt er þó hægt að prenta út bráðabirgðakort í réttindagátt og gildir það í 3 mánuði í senn.

Er ES-bráðabirgðakort sent  í símann?

Bráðabirgðakortið kemur sem Pdf skjal, sem er hægt að opna í gegnum réttindagátt. (https://rg.sjukra.is/Account/Login.aspx)

Er til sjúkratryggingakort til að nota utan Evrópu?

Nei en Sjúkratryggingar Íslands gefa út sérstaka tryggingaryfirlýsingu til einstaklinga sem tryggðir eru hér á landi en hyggjast dveljast í löndum sem eru utan EES svæðisins. Þetta á við um ferðamenn, námsmenn og ríkisborgara utan EES.

Viðkomandi þarf samt sem áður að greiða fullt verð fyrir þjónustuna og skila svo inn umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar ásamt frumritum reikninga og staðfestingu á greiðslu til Sjúkratrygginga. Tryggingayfirlýsingar er hægt að prenta út á mínum síðum í réttindagátt (https://rg.sjukra.is/Account/Login.aspx ).

Getur erlendur ríkisborgari sem er sjúkratryggður á Íslandi fengið ES kort?

Ríkisborgari innan EES svæðisins sem er sjúkratryggður á Íslandi getur fengið ES kortið. Ríkisborgari utan EES getur ekki fengið kort og þarf því alltaf tryggingaryfirlýsingu sem hægt er að sækja um og prenta út á mínum síðum í réttindagátt. (https://rg.sjukra.is/Account/Login.aspx )

Námsmenn:

Þarf að flytja lögheimili úr landi þegar farið er erlendis í nám?

Námsmenn á Norðurlöndunum

Norðurlöndin eru einu löndin sem krefjast þess að námsmenn flytji lögheimili sitt.

Þegar námsmenn flytja lögheimili sitt til Norðurlanda þá eru þeir tryggðir í viðkomandi landi en halda samt tryggingu sinni hér á landi. Sækja þarf þó um skráningu hjá Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands í hvert skipti sem þau komið er í heimsókn eða þegar flutt heim. Beiðni send á [email protected]

Námsmenn í EES löndum og Sviss (að undanskildum Norðurlöndum)

Námsmenn í EES löndum (fyrir utan Norðurlönd) og Sviss geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Námsmenn þurfa þó að kynna sér vel reglur þess lands sem farið er til. Námsmenn og fjölskyldur þeirra eiga rétt á læknishjálp hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi viðkomandi lands með því að framvísa ES korti sínu.

Námsmenn utan EES landa og Sviss

Námsmenn sem stunda nám í löndum utan EES og fjölskyldur þeirra geta haldið lögheimili sínu hér á landi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Unnt er að fá útgefna tryggingaryfirlýsingu um sjúkratryggingar hér á landi.

Tryggingaryfirlýsingar námsmanna eru í raun viljayfirlýsingar um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í þeim sjúkrakostnaði sem námsmaður kann að verða fyrir á meðan á námi erlendis stendur. Námsmenn, makar þeirra og börn greiða sama verð og einstaklingar greiða fyrir sambærilega heilbrigðisaðstoð hér á landi auk umframkostnaðar.

Námsmenn í Bandaríkjunum

Námsmenn í Bandaríkjunum eru hvattir til að hafa samband við tengilið Sjúkratrygginga Íslands í Bandaríkjunum, GMMI Global. Global á að auðvelda sjúkratryggðum einstaklingum frá Íslandi aðgengi að ýmsum sjúkrastofnunum í Bandaríkjunum.  Hægt er að hafa samband við GMMI Global í gegnum tollfrjálst númer 1-800-682-6065 eða á netfangið [email protected] . Þegar tryggingayfirlýsing er gefin út til námsmanna í Bandaríkjunum fylgir bréf með með öllum upplýsingum varðandi GMMI Global.

Verður að skrá sig aftur í tryggingaskrá þegar námsmaður kemur í frí eða flytur aftur til baka?

Námsmenn frá Norðurlöndunum þurfa sækja um skráningu hjá SÍ í hvert skipti sem þau koma í heimsókn eða flytja heim og þurfa þá að framvísa námsstaðfestingu. Einnig aðrir námsmenn sem flytja aftur heim þegar þeir hafa af einhverjum ástæðum flutt lögheimili sitt á námstíma.

Athugið að einstaklingar sem flytja milli Norðurlanda innan árs fara sjálfkrafa inná tryggingaskrá og verða því sjálfkrafa sjúkratryggðir hér á landi – þá er ekki þörf á að sækja sérstaklega um sjúkratryggingu til okkar.

Tryggingayfirlýsingar fyrir ferðalög utan EES

Hvað er tryggingayfirlýsing?

Tryggingaryfirlýsing er staðfesting á sjúkratryggingum viðkomandi. 

Hverjir þurfa tryggingayfirlýsingu frá SÍ?

Einstaklingar sem eru ekki EES ríkisborgarar en sjúkratryggðir hér, þ.e. þeir sem geta ekki fengið evrópska sjúkraskírteinið.                         

Einstaklingar sem eru að fara í nám utan EES svæðisins.  Þá þarf að senda inn staðfestingu á námi með umsókninni.

Ferðamenn sem ferðast utan EES

Hversu lengi gildir Tryggingayfirlýsingin?

Tryggingayfirlýsing gildir í 3 mánuði. Námsmenn geta þó fengið tryggingaryfirlýsingu í 1 ár með því að skila inn staðfestingu á námi frá skóla.

Tryggingaskrá

Hvernig er sótt um sjúkratryggingu?

Sótt eru um sjúkratryggingu á umsóknareyðublaði  og henni er skilað inn til Þjónustuvers SÍ eða með því að senda hana í tölvupósti til Alþjóðadeildar, á netfangið [email protected].

Er hægt að fá flýtimeðferð á sjúkratryggingu?

Ef einstaklingur skilar inn E-104 vottorði með umsókn þá fer umsóknin í forgang. Námsmenn þurfa að skila inn staðfestingu á námi erlendis og lífeyrisþegar sem lífeyri frá Íslandi fara í forgang. 

Ferðalög innan EES landa.

Þegar ferðast er til landa innan EES þá framvísa einstaklingar ES korti sínu ásamt vegabréfi og greiða þá strax eins og sjúkratryggður í því landi. Engin endurgreiðsla er þegar svo er.

Ef einstaklingar eru ekki með ES kort meðferðis þá er sótt um endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaðir til Alþjóðadeildar Sjúkratrygginga Íslands. Sótt er um á umsóknareyðublaði og því skilað inn til Þjónustuvers SÍ eða með því að senda hana í tölvupósti til Alþjóðadeildar ([email protected]) ásamt öllum reikningum og greiðslukvittunum.

Alþjóðadeild SÍ skráir umsóknina og afgreiðir endurgreiðslu samkvæmt íslenskum endurgreiðslu reglum en sendir jafnframt fyrirspurn til dvalarlandsins og athugar hver endurgreiðslan yrði í því landi, ef mismunur er á þá millifæra SÍ þann mismun inn á reikning viðkomandi.

Ath. að áríðandi er að fylla út í alla stjörnumerkta reiti á umsókn

Ferðalög utan EES landa.

Ef einstaklingar er að sækja um endurgreiðslu þá er sótt um endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaðir til Alþjóðadeildar Sjúkratrygginga Íslands. Sótt er um á umsóknareyðublaði á vef SÍ og henni er skilað inn til Þjónustuvers SÍ eða með því að senda hana í tölvupósti til Alþjóðadeildar ([email protected]) ásamt öllum reikningum og greiðslukvittunum.

Alþjóðadeild SÍ skráir umsóknina og afgreiðir endurgreiðslu samkvæmt íslenskum endurgreiðslu reglum. 

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica