Verkefni um sérhæfð tjáskiptatæki

16.6.2017

Sjúkratryggingar Íslands fengu í ársbyrjun 2016 styrk frá velferðarráðuneyti til verkefnis sem snýr að eftirfylgd með flóknum tjáskiptatækjum og til að gera tillögur um farveg til framtíðar. Verkefnið er liður í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks.

Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands fékk Endurhæfingu ehf. í lið með sér í verkefnið. Leitað var til sjö þjónustunotenda sem nota flókinn tjáskiptabúnað með augnstýrðri tækni. Notkun á búnaði var yfirfarin og mál sett í farveg til að bæta úr málum eftir þörfum. Voru þátttakendur á öllum aldri, börn, ungmenni og fullorðið fólk, og ástæður notkunar augnstýrðrar tækni mismunandi.

Niðurstöður sýna að þekkingu skortir í öllum ferlum við mat, umsókn og útvegun á búnaði. Eftirfylgni skortir við úthlutun, svo sem við uppsetningu tölvubúnaðar. Stuðning vantar við fagfólk sem eru í umsóknarferli fyrir hönd skjólstæðinga sinna. Aðstæður og aðgengi má bæta til að prófa mismunandi lausnir. Þjálfun skortir fyrir notendur svo og formlega kennslu og fræðslu fyrir nærumhverfið s.s. foreldra, maka, skóla, o.s.frv. Hjá þeim sem áður höfðu haft tölvufærni, sneru athugasemdir meira að tæknilegum þáttum.

Lagt er til að Sjúkratryggingar Íslands geri samning við sérfræðingateymi vegna kaupa á flóknum tjáskiptahjálpartækjum til aðstoðar við fagaðila, notendur og aðstoðarfólk. Samningurinn taki mið af verkferli sem prófað var í verkefnavinnunni. Sérfræðingateymið yrði til aðstoðar á landsvísu og þarf að hafa til umráða margvíslegan tækni-, vél-  og hugbúnað til að meta getu notenda til að nota flókin tjáskiptatæki.

Næstu skref Sjúkratrygginga Íslands eru að leita eftir samningum við sérfræðingateymi í samstarfi við þekkingarmiðstöð í Finnlandi um óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (www.tikoteekki.fi), en þar hefur verið unnið að þessum málum í mörg ár. Sem lið í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrirhugar velferðarráðuneytið jafnframt að veita SÍ styrk til fræðslu og þjálfunar á vegum þekkingarmiðstöðvarinnar í Finnlandi og leggja þannig grunn að þjónustu sérfræðingateymisins.

Skýrsla um verkefnið

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica