Vegna fjarheilbrigðisþjónustu

20.3.2020

  • Kross_litill

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vinna að því að auðvelda sjúklingum aðgengi að heilbrigðisþjónustu við þær aðstæður sem nú ríkja með því að bjóða upp á fleiri þjónustuform. Þannig munu SÍ greiða veitendum fyrir fjarheilbrigðisþjónustu, þ.e. símtöl og myndsímtöl, þegar það hentar sjúklingi og þegar skilyrði um slíka þjónustu eru uppfyllt. Þetta á bæði við um þjónustu heilsugæslu og sérgreinalækna og ef til vill fleiri. Að sjálfsögðu gildir þetta eingöngu um þjónustu sem hið opinbera tekur nú þegar þátt í að greiða.

Ljóst er að þessar lausnir henta ekki fyrir alla heilbrigðisþjónustu og alla notendur hennar. Núverandi ástand má hins vegar ekki verða til þess að slegið verði af kröfum um öryggi varðandi lausn af þessu tagi.

Embætti landlæknis hefur gefið út fyrirmæli um upplýsingaöryggi við veitingu heilbrigðisþjónustu sem skylt er að fylgja. Á heimasíðu landlæknis segir m.a.: “Við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu skal ætíð fylgja þeim kröfum sem settar eru fram í fyrirmælunum, en auk þess kröfum í persónuverndarlögum og öðrum lögum og fyrirmælum eftir því sem við á svo sem fyrirmælum landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskrá.” Fyrirmæli landlæknis gilda því um alla þjónustu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem bjóða sjúklingum sínum fjarþjónustu, hvort sem það er tímabundið á meðan yfirstandandi faraldur gengur yfir eða til lengri tíma.
Það er á ábyrgð veitenda þjónustu að koma sér upp viðeigandi búnaði, aðstöðu og starfsleyfum eftir því sem við á.

SÍ munu gefa út gjaldskrár um þessa þjónustu fyrir þá sem hana veita og hafa fengið til þess leyfi landlæknis. Í reglugerð sem fylgir gjaldskrá verður m.a. kveðið nánar á um greiðsluþátttöku hins opinbera. Við verðlagningu þjónustunnar verður horft til fordæma hjá þeim þjóðum sem langa reynslu hafa af fjarþjónustu. Í sumum tilvikum eru greiðslur til veitenda fjarþjónustu lægri en þegar um hefðbundna þjónustu er að ræða, en í öðrum geta greiðslur verið sambærilegar og þegar um hefðbundna þjónustu er að ræða.

Þessi aðgerð er í samræmi við Heilbrigðisstefnu til 2030 og er unnin í samráði við Embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytið. Þá hefur verið haft samráð við Læknafélag Reykjavíkur og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica