Útboð á sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu

23.8.2019

Með lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup varð sú breyting á að heilbrigðisþjónusta er ekki lengur undanþegin opinberu innkaupaferli. Í samræmi við lögin hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) ákveðið að fela Ríkiskaupum að bjóða út sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu. Mun það innkaupaferli hefjast á næstu dögum með birtingu útboðsauglýsingar á utbodsvefur.is. Öll útboðsgögn og samskipti þ.e. fyrirspurnir og svör varðandi innkaupin verða rafræn í útboðskerfi Ríkiskaupa, Tendsign.is. Tilboðum þarf að skila rafrænt í gegnum útboðskerfið.

Þar sem um umtalsverða breytingu er að ræða fyrir sjálfstætt starfandi sjúkraþálfara er mikilvægt að þeir kynni sér í tíma innkaupaferlið á vef Ríkiskaupa https://www.rikiskaup.is/is/utbod-kaup-og-sala en þar eru m.a. leiðbeiningar fyrir Tendsign.

Þegar innkaupaferlið er hafið verður boðið upp á kynningarfund og þeir sem sótt hafa útboðsgögn munu fá tilkynningu um stað og stund í tölvupósti í gegnum útboðskerfið.

Breytingin sem þetta felur í sér gagnvart sjúkraþjálfurum er sú að með útboðinu er innleidd virk samkeppni í innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu. Óskað verður eftir tilboðum frá fyrirtækjum sem reka sjúkraþjálfunarstofur og veita sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið með útboðinu er að sjúkratryggðum einstaklingum sé veitt sjúkraþjálfun sem hluti af heildstæðri heilbrigðisþjónustu, á sem hagkvæmastan hátt.

Lögð er áhersla á að sjúklingum með flókinn vanda sem þarfnast langtíma sjúkraþjálfunar verði tryggður forgangur og nægilegur aðgangur að þjálfun. Þjónustan skal miða að því að bæta/viðhalda sjálfsbjargargetu einstaklinga með það að markmiði að einstaklingar geti stundað atvinnu og/eða nám og að aldraðir og fólk með færniskerðingar geti búið í sjálfstæðri búsetu sem allra stærstan hluta ævi sinnar og þurfi sem minnst að dvelja á sjúkrahúsi eða dvalarstofnun.

Í kjölfar útboðsins stefna SÍ á að gera samninga um sjúkraþjálfun á landsbyggðinni svo og um langtíma meðferð í heimahúsum.

Gert er ráð fyrir að samningar taki gildi í lok árs 2019 eða byrjun árs 2020 og gildi í þrjú ár.

Núgildandi samningur gildir til 1. október nk. Leitast verður við að tryggja greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í sjúkraþjálfun þar til nýir samningar hafa tekið gildi. 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica