SÍ: Forgangsröðun haldi og kostnaður rúmist innan fjárlaga

Vonast til að ná samningum við talmeinafræðinga og sjúkraþjálfara sem fyrst

25.2.2021

  • SÍ lógó

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) vinna nú að því að koma á samningum við sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.


Fram hefur komið í umfjöllun um viðræður SÍ við talmeinafræðinga að í núverandi samningi þessara aðila er gerð krafa um tveggja ára starfsreynslu(*). Ákvæðið, sem var sett inn að tillögu talmeinafræðinga á sínum tíma, er nú eitt af því sem þeir leggja áherslu á að falli brott í nýjum samningi. SÍ telja vel koma til greina að endurskoða ákvæðið en benda á að það myndi líklega leiða til þess að kostnaður vegna þjónustu talmeinafræðinga fari fram úr þeim fjárveitingum sem Alþingi hefur ákveðið. 

Hægt að fella burt kröfu um tveggja ára starfsreynslu ef umfang þjónustu verður skilgreint
Að mati SÍ er hægt að fella burt kröfuna um tveggja ára starfsreynslu talmeinafræðinga án þess að það leiði til framúrkeyrslu fjárveitinga. Til þess að svo mætti verða þyrfti að semja við fyrirtæki talmeinafræðinga, en ekki einstaka veitendur, um umfang þjónustunnar. Það væri breyting frá því sem verið hefur þar sem eldri samningar um þjónustu talmeinafræðinga (og t.d. sérgreinalækna og sjúkraþjálfara) hafa verið án takmarkana á umfangi þeirrar þjónustu sem veitt er. Þetta hefur þýtt að kostnaður vegna þeirra hefur iðulega farið fram úr fjárlögum, sem hefur verið harðlega gagnrýnt m.a. af Ríkisendurskoðun.

Sjúkratryggingar Íslands binda vonir við að samningar við talmeinafræðinga náist sem fyrst til að hægt sé að byrja að starfa samkvæmt nýjum viðmiðum um veitingu þessarar mikilvægu þjónustu.

Þjónusta sjúkraþjálfara verði tryggð fyrir þá sem mest þurfa á henni að halda
Nú standa einnig yfir viðræður við sjúkraþjálfara. Stjórnvöld vilja hverfa frá heildarsamningi við hagsmunafélag viðkomandi stétta og semja um þjónustuna beint við fyrirtæki sjúkraþjálfara um að veita fyrirfram ákveðið magn þjónustu.

Sjúkraþjálfarar eru mikilvæg heilbrigðisstétt og það er ríkur vilji til að ljúka samningi við þá og eiga nánara samstarf um þróun þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeir geta veitt. Markmið SÍ er að kostnaður ríkisins af þjónustu sjúkraþjálfara sé innan þeirra marka sem fjárlög hvers árs segja til um. Þá er einnig unnið að því að samningarnir tryggi betur forgangsröðun þjónustu við þá notendur sem mesta þörf hafa. Í eldri samningum voru þessi markmið ekki skilgreind nægilega vel. Sjúkraþjálfarar hafa mótmælt því að þessi stefnumörkun og lagaskylda endurspeglist í ákvæðum nýs samnings og leitaði Félag sjúkraþjálfara til heilbrigðisráðuneytisins með það erindi. Ráðuneytið vísaði hins vegar kröfugerð þeirra á bug og minnti jafnframt á þá lögboðnu skyldu allra veitenda heilbrigðisþjónustu til að semja við SÍ óski þeir eftir kostnaðarþátttöku hins opinbera í þeirri þjónustu sem þeir veita.

Sjúkratryggingar Íslands binda vonir við að samningar við bæði talmeinafræðinga og sjúkraþjálfara náist sem fyrst til að hægt sé að byrja að starfa samkvæmt nýjum viðmiðum um veitingu þessarar mikilvægu þjónustu.

---

* Tveggja ára reynslu geta einstaklingar öðlast með því m.a. að vinna hjá fyrirtækjum á viðkomandi sviði, þar sem ábyrgðaraðili fyrirtækisins er með tveggja ára reynslu, eða á stofnunum sem reknar eru af hinu opinbera eða öðrum aðilum.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica