Stefnt að rammasamningi – tímabundin gjaldskrá vegna hjúkrunarþjónustu við heimilismenn hjúkrunarrýma.

19.1.2015

  • Kross_litill

Þann 1. janúar 2015 tóku lög um sjúkratryggingar nr. 112/2008 að fullu gildi þar á meðal um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands og gerð samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.  

Fyrirséð var að samningar við hjúkrunarheimilin í landinu myndu ekki nást fyrir áramót og að í byrjun þyrfti að ákvarða greiðsluþátttöku vegna þjónustunnar með útgáfu sérstakrar gjaldskrár.  Hún hefur nú verið birt í Stjórnartíðindum (13. janúar sl.) og tekur til allrar hjúkrunarþjónustu öldrunarstofnana, sem ekki eru á föstum fjárlögum og eru án samnings við SÍ. 

Gjaldskráin er bráðabirgðaráðstöfun og gildir einungis í fimm mánuði.  Til lengri tíma litið er stefnt að því að fyrirkomulag greiðsluþátttökunnar verði ákveðið í samráði við öldrunarstofnanirnar og að daggjöldin verði greidd til þeirra á grundvelli rammasamnings sem þær eigi aðild að.  

Gjaldskráin tekur til hjúkrunarþjónustu við sjúkratryggða heimilismenn og eru greiðslur samkvæmt henni í formi daggjalda.  Þau koma til viðbótar daggjaldi samkvæmt reglugerð sem ráðherra hefur sett um dvalarkostnað heimilsmannanna, sem er 11.668 kr. á árinu 2015.  Dvalardaggjaldið er hið sama fyrir alla og er óháð því á hvaða heimili menn dvelja.  Fjárhæð þess ákvarðar hámark kostnaðarhlutdeildar heimilismanns vegna búsetu í hjúkrunarrými. 

Hjúkrunardaggjald SÍ er án tekjutengingar eða kostnaðarhlutdeildar heimilismanns og er breytilegt með hliðsjón af áætluðu umfangi hjúkrunarþjónustunnar sem heimilismaður þarf á að halda.  SÍ munu greiða daggjöld heimilismanna beint til stofnananna sem veita þeim þjónustuna, en til að byrja með mun Tryggingastofnun ríkisins annast þá framkvæmd með sambærilegum hætti og verið hefur.

Í gjaldskránni er gerð grein fyrir hámarksfjölda hjúkrunarrýma hjá stofnunum sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginganna tekur til og fjárhæð daggjaldsins sem hver stofnun á rétt á.  Fjárhæðin ræðst af áætlaðri hjúkrunarþyngd heimilismannanna sem þar eru, sbr. forsendur fjárlaga 2015.  

Samkvæmt gjaldskránni nær samþykkt greiðsluþátttaka SÍ til allt að 2.112 hjúkrunarrýma hjá 44 öldrunarstofnunum.  Meðaldaggjaldið er kr. 13.491, sem aftur þýðir að ef gert væri ráð fyrir 100% nýtingu rýmanna myndi heildarkostnaður SÍ vegna hjúkrunarþjónustu öldrunarstofnana verða 10.400 m.kr. á árinu 2015.

Sjá einnig meðfylgjandi gjaldskrá, nr. 13/2015 í B-deild Stjórnartíðinda.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica