Samið um rekstur tveggja nýrra heilsugæslustöðva

6.9.2016

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa samið um rekstur tveggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Útboð á rekstri þriggja nýrra heilsugæslustöðva var auglýst í lok apríl s.l., á grundvelli ákvörðunar Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Þrjú tilboð bárust, tvö voru samþykkt en þriðja tilboðinu var hafnað.

Heilsugæslustöðvar að Bíldshöfða í Reykjavík og að Urðarhvarfi í Kópavogi
Nýju stöðvarnar munu verða starfræktar að Bíldshöfða 9 í Reykjavík og að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi. Í forsvari fyrir stöðina að Bíldshöfða eru læknarnir Hildur Björg Ingólfsdóttir, Gunnlaugur Sigurjónsson,  Þórarinn Ingólfsson, Þórarinn Þorbergsson og Þórdís Anna Oddsdóttir. Í forsvari fyrir stöðina að Urðarhvarfi eru læknarnir Sturla B. Johnsen, Teitur Guðmundsson og Torbjörn Andersen. Þann 1. nóvember n.k.  verður opnað fyrir þann möguleika að einstaklingar geti skráð sig á stöðvarnar í Réttindagátt SÍ. Skráningin tekur gildi við opnun stöðvanna, sem áætluð er 1. febrúar 2017.

Staðsetning heilsugæslu að Bíldshöfða tekur mið af því að stöðin geti þjónað þeim sem búa eða starfa á austurhluta höfuðborgarsvæðisins. Stöðin mun standa við einn stærsta þéttingarreit byggðar í Reykjavík en á næstu árum mun standa til að byggja þúsundir íbúða í næsta nágrenni stöðvarinnar. Við stöðina á Bíldshöfða munu starfa tíu læknar, þar af níu með sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum. Auk læknanna verða starfandi tvær ljósmæður og þrír hjúkrunarfræðingar með sérmenntun á sviði heilsugæsluhjúkrunar eða lýðheilsufræða. Stöðin hyggst leggja áherslu á að skapa sér sérstöðu í sérhæfðri teymisvinnu fyrir einstaklinga með lífstílssjúkdóma og langvinna sjúkdóma s.s. sykursýki, lungnateppu, stoðkerfisvandamál og geðsjúkdóma.

Heilsugæslustöðin að Urðarhvarfi er einnig ætlað að þjóna þeim sem búa eða starfa á austurhluta höfuðborgarsvæðisins. Áherslur í þjónustunni verða fræðsla, forvarnir og notkun skimunar fyrir heilsufarsvandamálum. Einnig verður lögð áhersla á samfellu og samhæfingu  og gott aðgengi að þjónustu stöðvarinnar fyrir skjólstæðinga hennar. Við stöðina að Urðarhvarfi munu starfa átta læknar, þar af fimm með sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum, og fimm hjúkrunarfræðingar.

Útboð Ríkiskaupa
Í útboði Ríkiskaupa var höfuðborgarsvæðinu skipt í þrjú svæði þannig að nýjar heilsugæslustöðvar yrðu starfræktar þar sem þörf fyrir slíka þjónustu væri mest. Markmiðið með útboðinu var að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu og auka fjölbreytni í rekstrarformi heilsugæslustöðva að norrænni fyrirmynd. Jafnframt voru í útboðinu skilgreindar ákveðnar lágmarkskröfur til þjónustunnar, með samræmdri kröfulýsingu, og til rekstraraðila. Krafa var að félagið sem rekur þjónustuna verði í meirihlutaeigu heilbrigðisstarfsmanna sem starfa á viðkomandi stöð í a.m.k. 80% starfshlutfalli. Að auki var gerð sú krafa að helmingur starfandi lækna við stöðina hið minnsta sé með sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum og að a.m.k. helmingur hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra hafi reynslu af starfi á heilsugæslustöð. Í samræmdri kröfulýsingu er m.a. gerð sú krafa að bið eftir þjónustu sé að jafnaði skemmri en tveir sólarhringar.

Heilsugæslan sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu
Með tveimur nýjum heilsugæslustöðvum er verið að styrkja stoðir heilsugæslunnar og grundvöll hennar til að þjóna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu.  Samhliða opnun þeirra er jafnframt ætlunin að fjármögnun allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, bæði nýrra og eldri, byggi á sömu forsendum óháð rekstrarformi þeirra. Með þessum breytingum og frelsi sjúkratryggðra til að skrá sig á þá stöð sem þeir kjósa er ætlunin að heilsugæslustöðvarnar verði i samkeppni um að veita skilvirka og góða þjónustu.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica