Nýir og endurnýjaðir samningar um heilbrigðisþjónustu erlendis. Samningur um jáeindaskönnun vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.

1.3.2016

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Skåne Care AB hafa undirritað samning um svokallaða „choline“- jáeindaskönnun  á háskólasjúkrahúsinu í Lundi í Svíþjóð (Skånes Universitets Sjukhus, SUS). 

Þessi tegund af rannsókn er fyrst og fremst notuð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Áfram er í gildi samningur um jáeindaskönnun milli SÍ og Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn vegna annarra sjúkdómstilvika, en SÍ greiddu fyrir tæplega 200 rannsóknir þar með jáeindaskanna á síðasta ári.

Megin markmið samningsins er að tryggja sjúkratryggðum einstaklingum, sem þurfa á slíkum rannsóknum að halda, aðgengi að þessari þjónustu. Hingað til hefur enginn samningur verið í gildi um þessar sérstöku rannsóknir, en sjúklingar verið sendir í einstaka tilfellum í nauðsynlegar sérrannsóknir erlendis þegar þjónustan er ekki í boði hérlendis.

Jafnframt hefur grunnsamningur SÍ við Skåne Care AB, sem kemur fram fyrir hönd opinberu heilbrigðisþjónustunnar á Skáni, verið endurnýjaður.

Þegar er í gildi samningur um hjartaaðgerðir á börnum í Lundi milli SÍ og Skåne Care, sem undirritaður var árið 2011. Hann felur í sér að læknar Barnaspítala Hringsins og Barnahjartaskurðdeildarinnar í Lundi vinna saman að leiðréttingu ýmissa hjartagalla, sem börn fæðast með hér á landi. Góð reynsla er af því samstarfi. SÍ og Skåne Care hafa áhuga á að þróa frekara samstarf til að bæta aðgengi sjúkratryggðra einstaklinga að læknismeðferð, sem ekki er veitt á Íslandi.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica