Niðurstöður úttektar á heimaþjónustu ljósmæðra

20.10.2015

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa gert úttekt á framkvæmd rammasamnings um þjónustu ljósmæðra vegna fæðinga og umönnunar sængurkvenna í heimahúsum. Núgildandi rammasamningur nær til alls 112 ljósmæðra víðsvegar um landið.  

Auk þess að veita þjónustu vegna fæðinga og umönnunar sængurkvenna í heimahúsum, er tilgangur samningsins að gera fæðingardeildum heilbrigðisstofnana kleift að stytta legutíma sængurkvenna og nýbura í fyllsta samræmi við heilbrigðishagsmuni þeirra og heilsufarsflokkun. Í þeim tilvikum sem legutími er styttur á grundvelli samningsins þarf tiltekin þjónusta ljósmæðra að vera tryggð þar til ungbarnavernd heilsugæslunnar tekur við.

 

Niðurstöður úttektar SÍ sýna að heimaþjónusta ljósmæðra hefur verið að eflast með breytingum á samningi síðustu ár.  Þær snúa að flokkun sængurkvenna og barna í þrjá heilsufarsflokka A, B eða C með það fyrir augum að veita þjónustu í samræmi við þörf hvers og eins. Flokkunin byggist á heilsufari móður og barns. Læknar og ljósmæður á fæðingarstöðum bera ábyrgð á flokkun mæðra/barna og þurfa ákveðin skilyrði að liggja fyrir áður en mæður/börn eru útskrifuð í heimaþjónustuna. Með markvissri hagræðingu hefur jafnframt tekist að auka þjónustu við sængurkonur sem lágu áður lengri sængurlegu inni á stofnunum og gátu ekki notað heimaþjónustu ljósmæðra. Hlutfall sængurkvenna í heimaþjónustu um land allt hefur þannig hækkað umtalsvert og farið úr 36,9% í 83,7% milli áranna 2006 og 2015. 


Heildarkostnaður sjúkratrygginga vegna heimaþjónustu ljósmæðra fyrstu 6 mánuði ársins 2015 er kr. 97,9 m.kr. sem er 9,08% hækkun frá sama tímabili fyrra árs. Helstu ástæður kostnaðarhækkunar milli ára má rekja til aukinnar þjónustu við veikari sængurkonur og börn í heilsufarsflokki C.

Breytingarnar á samningi um heimaþjónustu ljósmæðra hafa síðustu ár að auki leitt til töluverðar hagræðingar á Landspítala og á öðrum stofnunum úti á landi. Frá árinu 2007 til 2013 hefur meðallegutími eftir fæðingu með keisara styst úr 6,2 í 2,5 daga. Þrátt fyrir mikla hagræðingu er enn full ástæða til að fara yfir þjónustu við mæður og börn eftir fæðingu með heilstæðum hætti, bæta fyrirkomulag þjónustunnar, auka rafræn samskipti og skráningu og skoða möguleika til breytinga og samþættingar þjónustunnar.

 


Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica