Meðferðir erlendis

28.8.2020

  • SÍ lógó

Að höfðu samráði við landlækni og sóttvarnarlækni hafa Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) ákveðið að fresta almennt greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu erlendis sem ekki telst lífsbjargandi. Er þessi ráðstöfun gerð vegna mikillar óvissu í heiminum vegna Covid-19. Meginreglan verður því sú að stofnunin mun ekki gefa út greiðsluábyrgðir vegna slíkrar þjónustu fyrr en áhætta telst ásættanleg, í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnayfirvalda. Rétt er að taka fram að umsóknir sem berast verða afgreiddar jafnóðum þó ekki sé hægt að samþykkja ferð á þeim tíma sem sótt er um.

Þeir einstaklingar sem þegar hafa fengið samþykkta greiðsluþátttöku í kostnaði vegna meðferðar erlendis falla einnig hér undir og verða almennt ekki gefnar út greiðsluábyrgðir til flugfélaga vegna þeirra fyrr en áhætta telst ásættanleg.

Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu verður hvert og eitt mál skoðað sérstaklega. Auk læknisfræðilegs ástands sjúklings er horft til nýgengis sýkinga á því svæði sem sjúklingur hyggst fara til, sjá: https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea og https://covid19-country-overviews.ecdc.europa.eu/.

Ef, þrátt fyrir framangreinda ákvörðun, sótt er þjónusta erlendis (sem krefst fyrirfram samþykkis SÍ), mun allur kostnaður falla á viðkomandi, þ.e. ekki verður um greiðsluþátttöku að ræða af hálfu SÍ. Einnig er vert að benda á að SÍ er ekki heimilt að taka þátt í kostnaði vegna mögulegrar sóttkvíar, hvorki erlendis né hér á landi.

Ítrekað skal að þessi ákvörðun gildir ekki ef um lífsbjargandi meðferð er að ræða.

Ákvörðun þessi, sem tekin er með öryggi einstakra sjúklinga, öryggi heilbrigðiskerfis landsins og íslensks samfélags í huga, verður endurskoðuð reglulega.  

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica