Kröfu Klíníkurinnar hafnað fyrir dómi

19.12.2019

Þann 13. desember sl. var kveðinn upp dómur í máli Klíníkurinnar í Ármúla gegn íslenska ríkinu. Í málinu var deilt um þá ákvörðun SÍ að hafna greiðslu reikninga vegna vinnu tveggja svæfingalækna sem störfuðu hjá Klíníkinni á árunum 2017 og 2018. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum fyrirtækisins.

Forsaga málsins er sú að læknarnir óskuðu eftir aðild að rammasamningi við SÍ haustið 2017. SÍ hafnaði umsóknum þeirra á grundvelli þess að velferðarráðuneytið hefði gefið SÍ þau fyrirmæli að hafna öllum umsóknum um aðild að samningnum vegna halla á fjárlagalið sem tekur til lækniskostnaðar.

Í september 2018 gekk dómur í máli sem nokkrir sérgreinalæknar höfðuðu gegn íslenska ríkinu. Með dómnum var ákvörðun ráðuneytisins felld úr gildi og jafnframt var ákvörðun SÍ, um að hafna umsóknum lækna um aðild að samningnum, felld úr gildi. Annar framangreindra svæfingalækna var í þessum hópi. Umsóknir svæfingarlæknanna um aðild að rammasamningi SÍ voru síðan samþykktar í nóvember 2018.

Haustið 2018 gerði Klíníkin kröfu um greiðslu fyrir læknisverk sem læknarnir tveir framkvæmdu áður en umsóknir þeirra um aðild að rammasamningnum voru samþykktar. Taldi Klíníkin sig hafa orðið fyrir tjóni vegna höfnunar SÍ sem hafi verið byggð á ólögmætum forsendum. Þessu synjuðu SÍ á grundvelli þess að læknarnir hafi ekki verið aðilar að samningi við SÍ þegar umrædd læknisverk voru framkvæmd og því væri SÍ óheimilt að greiða fyrir þessi verk.

Dómurinn sem féll 13. desember sl. byggði niðurstöðu sína m.a. á því að Klíníkin hefði sjálf tekið ákvörðun um að gera læknisaðgerðir án þess að fyrir lægi hvort greiðsluskylda SÍ væri fyrir hendi. Þá verði tjón Klínikurinnar með engu móti rakið til athafna SÍ heldur þvert á móti til eigin ákvörðunar um að nýta þjónustu lækna sem ekki áttu aðild að rammasamningi SÍ. Af þessu leiði að ekki sé orsakasamhengi milli þess tjóns sem Klínikin telji sig hafa orðið fyrir og synjunar SÍ um aðild læknanna tveggja að samningnum. Þannig bæri að sýkna ríkið af öllum kröfum Klíníkurinnar. Málskostnaður var látinn falla niður.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica