Innleiðing breyttrar fjármögnunar Landspítala

Skýrsla Greiningardeildar SÍ

19.9.2017

Í febrúar 2016 undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands og Landspítali tímamótasamning um innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar spítalans fyrir árið 2016. Samningurinn hafði engar fjárhagslegar skuldbindingar, hvorki fyrir SÍ né LSH en hann var þó mikilvægt skref í undirbúningi og innleiðingu að breyttri og bættri fjármögnun spítalans. Á grundvelli samningsins var gerð einskonar skuggakeyrsla á fyrirhuguðum samningi um framleiðslutengda fjármögnun og samanburður gerður á tveimur mismunandi fjármögnunaraðferðum. Markmiðið er að geta tengt fjármögnun spítalans og umfang þjónustu til að tryggja árangursríka heilbrigðisþjónustu og hagkvæma nýtingu fjármuna. Framleiðslutengd fjármögnun getur að auki haft afkastahvetjandi og jákvæð áhrif fyrir Landspítala þegar til lengri tíma er litið. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.

Í meðfylgjandi skýrslu eru teknar saman upplýsingar í tengslum við skuggakeyrslu samningsins og framleiðslutengda fjármögnun skv. samningnum borin saman við hefðbundna fjármögnun spítalans skv. fjárlögum ársins 2016. Samningur um innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar Landspítala byggist á alþjóðlega DRG flokkunarkerfinu*. Þessi fjármögnunaraðferð er nýmæli hér á landi en hefur tíðkast lengi víða erlendis, m.a. í sjúkrahúsrekstri annars staðar á Norðurlöndunum. Talsverð undirbúningsvinna liggur að baki samningnum og hefur Landspítali unnið við flokkun og skráningu samkvæmt DRG-flokkunarkerfinu í nokkur ár. Sú vinna spítalans og sú framleiðsluáætlun sem lögð var fram er því megin forsenda samningsins og var notuð sem viðmið fyrir mögulegar greiðslur frá SÍ til Landspítalans. Bæði framleiðsluáætlunin og einingarverðið er því lykilþáttur í skuggakeyrslunni.

Niðurstöður skuggakeyrslunnar eru þær að Landspítalinn framleiddi alls 44.615 DRG einingar á árinu 2016, sem var 615 einingum umfram framleiðsluáætlun spítalans, eða 101,4% af áætlun. Í níu mánuði ársins var framleiðsla yfir framleiðsluáætlun á meðan þrír mánuðir voru undir áætlun. Miðað við umsamið einingarverð í upphafi árs hefði spítalinn fengið 49.329,7 m.kr. í brúttó tekjur vegna framleiðslunnar. Þetta hefði skilað sér í heildarfjárheimild til rekstrar uppá 60.797 m.kr. Til samanburðar var fjárheimild til rekstrar 100 m.kr. hærri eða 60.897 m.kr. á föstum fjárlögum árið 2016.

Samhliða skuggakeyrslunni var þjónusta spítalans greind niður á DRG flokka. Skýrslan sýnir að fáir DRG flokkar eru tiltölulega veigamiklir þegar kemur að heildareiningarfjölda og þar með heildarkostnaði. Tíu einingahæstu DRG flokkarnir fyrir komur vega þannig um 42% af heildarfjölda framleiddra eininga og tíu einingahæstu DRG flokkarnir fyrir legur vega um 23%. Ef hægt er að finna leiðir til að fækka einingum í þessum stóru flokkum án þess að skerða þjónustuna má ná fram hagræðingu sem um munar í heilbrigðisþjónustunni.

 


* DRG (Diagnosis Related Groups) er heiti alþjóðlegs flokkunarkerfis sem notað er til að búa til einsleita sjúklingaflokka sem hver um sig tekur mið af sjúkdómsgreiningu sjúklings, aðgerðum, meðferðum, kyni, aldri og eðli útskriftar. Hver flokkur er verðlagður sem gerir kleift að skilgreina allan kostnað að baki hverri aðgerð/meðferð og sjá nákvæmlega hvernig fjármunum er varið.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica