Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu - breytt fyrirkomulag fjármögnunar.

7.8.2018

Nú er rúmt ár liðið síðan nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu var innleitt.  Fjármögnunarkerfið byggir á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar á að endurspegla þann skjólstæðingahóp sem heilsugæslustöðin þjónar. Fjármagnið fylgir einstaklingnum þannig að ef hann ákveður að skrá sig á aðra heilsugæslustöð fylgir  fjármagnið honum. Með nýja kerfinu er tryggt að allir sjúkratryggðir íbúar höfuðborgarsvæðisins geta skráð sig á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni. 

Á árinu 2017 bættust við tvær nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og fjöldi skráðra einstaklinga jókst í heildina um 5,5% milli ára.

Fjöldi koma á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu var samtals 488.193 árið 2017 miðað við 471.036 árið 2016, það er fjölgun um 4% milli ára. Komum fjölgaði hlutfallslega mest á heilsugæslustöðvunum í Efstaleiti (22%) og Firði (23%) en fækkaði mest í Grafarvogi (-11%) og í Efra-Breiðholti (-9%). Að meðaltali voru komur á síðdegisvakt um 10% af heildarkomum til heilsugæslunnar.

Í hverjum mánuði sóttu að meðaltali um 2% skráðra einstaklinga þjónustu sérgreinalækna í barna- og geðlækningum og 1,87% þjónustu á bráðamóttöku Landspítala. Komum til sérgreinalækna í þessum sérgreinum hefur fækkað hlutfallslega (2,8%) miðað við árið 2016 en komum á bráðamóttöku fjölgað (8%). Alls sóttu rúm 30% einstaklinga sem skráðir eru á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu þjónustu Læknavaktar árið 2017. Yfir 40% skjólstæðinga heilsugæslnanna í Firði, Hamraborg, Hvammi, Mjódd og Sólvangi sóttu þjónustu Læknavaktar einhvern tíma ársins 2017.  Fæstar komur á Læknavakt eru frá skjólstæðingum Urðahvarfs (11%), Seltjarnarnesi (18%), Höfða (16%) og Mosfellsumdæmi (20%).

Fjármögnunarlíkanið gerir ráð fyrir að grunnheilbrigðisþjónustu sé sinnt á heilsugæslustöðvum. Því fá stöðvarnar sérstaklega greitt þegar hlutdeild í skilgreindri grunnheilbrigðis­þjónustu er há og skjól­stæð­ingar þeirra þurfa ekki að sækja þjónustuna til annarra stöðva, sérgreinalækna (barna- og geðlækna), bráðamóttöku Landspítala eða Læknavakt. Allar stöðvar náðu vel yfir 50% hlutdeild og fimm stöðvar náðu yfir 70% hlutdeild að meðaltali yfir árið.

Fjármagn til heilsugæslustöðva á að endurspegla þann skjólstæðingahóp sem hún sinnir. Þeir hópar sem sækja mest heilsugæsluna eru börn, aldraðir, konur á barneignaaldri (mæðraeftirlit) og langveikir einstaklingar. Þessir þættir eru metnir með kostnaðar- og þarfavísitölu og um 80% af fjármagni sem ætlað er til heilsugæslunnar er skipt samkvæmt þeim þáttum. Kostnaðarvísitalan er hæst hjá heilsugæslunni Efstaleiti (1,15) og Lágmúla (1,1) en lægst hjá Urðahvarfi (0,92) og Mosfellsumdæmi (0,93). Þarfavísitalan er hæst hjá Höfða (1,48) en lægst hjá Urðahvarfi (0,85) og Mjódd (0,90).

Greitt var sérstaklega samkvæmt fjármögnunarlíkani fyrir skólahjúkrun, túlkaþjónustu og sálfræði­þjónustu sem stöðvarnar veita. Af heildargreiðslu til heilsugæslustöðvanna fóru 7,8% til þessara þátta.

Aðrir þættir sem greitt er fyrir í fjármögnunarlíkani beinast að gæðaverkefnum eins og að innleiða Heilsuveru sem gefur skráðum einstaklingum möguleika á lyfjaendurnýjunum, tímabókunum og fyrir­spurnum í gegnum netið. Einnig er greitt fyrir gæðaviðmið sem beinast aðallega að þáttum sem tengjast lýðheilsu.

Alls breyttu um 18 þúsund manns skráningu sinni á heilsugæslustöð árið 2017. Mestu breytingarnar tengjast opnun nýrra stöðva og tilfærslu einstaklinga yfir á þær. Um 4 þúsund manns breyttu skráningu sinni með því að fara í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands, en um 14 þúsund breytingar voru gerðar af starfsfólki heilsugæslustöðva.

Skýrsla - Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu - breytt fyrirkomulag fjármögnunar

Fjármögnunarlíkan Heilsugæsla höfuðborgarsvæðið

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica