Heilaaðgerðir með þræðingatækni gerðar á Íslandi

24.2.2016

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest samning milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala um að nú verði farið af stað með aðgerðir þar sem heilaæðagúlum er lokað með æðaþræðingartækni. Slíkar aðgerðir voru í sumum tilfellum gerðar á Íslandi fyrir um áratug síðan af erlendum sérfræðingum en undanfarin ár hefur hluti sjúklinga verið sendur erlendis. Árlega hafa um 6 til 8 sjúklingar verið sendir út til meðferðar en aðrir undirgengist opna skurðaðgerð hérlendis. 

Samningurinn tekur til þjónustu fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem þurfa á þessum aðgerðum að halda. Fyrst um sinn munu erlendir sérfræðingar koma hingað til lands og vera starfsfólki æðaþræðingardeildar spítalans innan handar með aðstoð á meðan þjónustan er að festa sig í sessi. Öryggi sjúklinga með sjúkdóma í æðakerfi heila- og taugakerfis mun aukast til muna með þessari nýju starfsemi. Nýr tækjabúnaður og ráðning sérhæfðs læknis á röntgendeild Landspítala gerir það mögulegt að færa þessa þjónustu til Íslands.

Með staðfestingu ráðherra hefur samningurinn tekið gildi og Landspítala gert kleift að hefjast handa við að veita þessa þjónustu hér á landi. Búist er við að fyrsta aðgerðin fari fram á spítalanum í næsta mánuði. Auk kostnaðar sem fellur á Landspítala er kostnaður Sjúkratrygginga Íslands við samninginn áætlaður tæpar 100 m.kr. Það er þó gert ráð fyrir að samningurinn muni leiða til umtalsverðrar lækkunar á kostnaði þegar á heildina er litið þar sem aðgerðirnar verða nú framkvæmdar hér á landi í stað þess að senda sjúklinga utan.

 

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica