Handvaldar tölur formanns sérgreinalækna

Fréttatilkynning frá Sjúkratryggingum Íslands, 21. maí 2021

21.5.2021

  • SÍ lógó

Vegna greinar sem formaður Læknafélags Reykjavíkur, Þórarinn Guðnason, birti í Morgunblaðinu í gær vilja Sjúkratryggingar Íslands koma því á framfæri að ranghermt er að einingarverð sérgreinalækna hafi ekki verið verðbætt síðustu ár.

Einingaverðin hafa verið verðbætt reglulega og í takt við samningsbundin ákvæði, allt fram til ársins 2020. Árið 2014 sömdu sérgreinalæknar síðast um verð fyrir sína þjónustu og fengu þar hækkun sem var vel umfram það sem almennt gerðist á þeim tíma. Einnig var samið um að verðbæta skyldi einingarverðið með meðaltali breytinga á vísitölu neysluverðs og launavísitölu. Síðustu ár hefur launavísitalan hækkað meira en vísitala neysluverðs og því hafa samningsbundnar verðbætur sérgreinalækna reynst óhagstæðari en reiknað var með. Þetta gat hvorugur samningsaðila séð fyrir og því er mikilvægt að huga sérlega vel að aðferðum við verðbætur og uppreikning einingarverðs í næstu samningsgerð.

Í greininni setur formaðurinn fram valdar tölur og vísitölur til sönnunar þess að innheimta aukagjalda af sjúklingum sé nauðsynleg til að sérgreinalæknar geti rekið þjónustu sína án taps. Þetta er ósannað. Stór hluti sérgreinalækna fær í sinn hlut greiðslur frá SÍ sem nema hundruðum þúsunda króna fyrir hvern dag sem þeir sinna stofuvinnu. Mörg dæmi eru um að heildargreiðslurnar nemi mörgum tugum milljóna á ári til einstakra lækna, þrátt fyrir að þeir sinni stofuþjónustu aðeins í hlutastarfi. Læknar þurfa vissulega að standa straum af ýmsum kostnaði við sinn stofurekstur, en engu að síður eru þetta mjög háar greiðslur.

Það sem gæti varpað ljósi á þörf fyrir innheimtu aukagjalda og á rekstrarafkomu í þessum geira væri ítarleg greining á rekstrinum og birting niðurstaðna þeirrar greiningar á opinberum vettvangi. Engar slíkar upplýsingar liggja fyrir um raunkostnað af þjónustu sérgreinalækna, eða framlegð af þeirri starfsemi, eins og kom raunar fram í máli formanns Læknafélags Reykjavíkur sjálfs í nýlegum Kveiksþætti á RÚV.

Fyrir liggur að breyta þarf samningum sérgreinalækna frá því sem áður var enda þarf þessi þjónusta að lúta sömu leikreglum og önnur heilbrigðisþjónusta – m.a. að samið verði um skilgreint umfang þjónustu eftir því sem fjárlög leyfa, reglur um forgangsröðun sjúklinga verði skýrðar, og þjónustan verði kostnaðargreind eins og landslög gera ráð fyrir. Staðreyndin er sú að þær tölur og fullyrðingar sem formaður Læknafélags Reykjavíkur setur fram í grein sinni í Morgunblaðinu varpa mjög takmörkuðu ljósi á nauðsyn þess að innheimta aukagjöld af sjúklingum. Lykiltölurnar liggja ekki fyrir.

Það þarf að fara fram kostnaðargreining á þjónustunni, sem allir samningsaðilar geta verið ásáttir um. Það er fullur vilji af hálfu Sjúkratrygginga að tryggja að samningsbundnar greiðslur til sérfræðilækna haldi í við verðlagsþróun en þá þurfa allar tölur að koma á borðið, ekki bara sumar.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica