Gengið frá fjölda mikilvægra samninga í desember hjá Sjúkratryggingum Íslands

15.1.2020

Á grundvelli mikils og góð samstarfs Sjúkratrygginga Íslands og fjölmargra veitenda heilbrigðisþjónustu árið 2019 tókst að koma fjölmörgum samningnum í höfn í desember.

Allir eru þessir samningar mikilvægir til að tryggja þjónustu við sjúklinga, hvort sem um er að ræða aðgengi fanga að geðheilbrigðis-þjónustu, aðgengi aldraðra að þjónustu hjúkrunarheimila, aðgengi barna og fjölskyldna þeirra að sérhæfðri heimahjúkrun og svo framvegis. SÍ þakka viðsemjendum sínum gott samstarf og uppbyggilegar viðræður í samningaferlinu.

Í desember 2019 var gengið frá neðangreindum samningum um heilbrigðis-þjónustu:

  • Samið var um rekstur og þjónustu 43ja hjúkrunarheimila á landinu. Gengið var frá samningi við hvert heimili fyrir sig en samningarnir eru samhljóða. Samhliða var gerður samstarfssamningur um fagleg málefni við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga. Sjá sérstaka fréttatilkynningu þar sem fram koma nánari upplýsingar um þessa samninga.
  • Gengið var frá tímamótasamningi um geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Samið var við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að móta, samhæfa og leiða þessa þjónustu í öllum fangelsum landsins. Markmið samningsins er að efla geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum, veita föngum einstaklingsmiðaða þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu sem tekur mið af þeim aðstæðum sem fangar búa við, þannig að þeir fái markvissa meðferð meðan á afplánun stendur. Þá er jafnframt markmið samningsins að tryggja samfellu í geðheilbrigðisþjónustu við fanga að lokinni afplánun.
  • Samið var við MS setrið um dagdvöl fyrir sjúklinga með taugasjúkdóma. Markmið samningsins er að tryggja skilgreindum hópi sjúklinga aðgengi að einstaklingsmiðaðri þjálfun í þeim tilgangi að auka og viðhalda virkni í daglegu lífi og styðja við búsetu á eigin heimili.
  • Samið var við Ljósið um endurhæfingu og stuðning við krabbameinsgreinda einstaklinga í þeim tilgangi að auka færni og virkni þeirra sem þjónustuna nota.
  • Níu samningar voru framlengdir frá einum upp í tólf mánuði ýmist að frumkvæði þjónustuaðila eða SÍ. Má þar nefna samning við Reykjalund, Læknavaktina og fleiri.

Auk ofangreindra samninga var skrifað undir tvo samninga um næringu og næringardrykki sem gerðir voru á grundvelli útboðs. Samningar um kaup á gervilimum á grundvelli útboðs eru nú í undirritunarferli.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica