Fyrirvaralaus uppsögn sjúkraþjálfara óheimil skv. úrskurði gerðardóms

20.12.2019

Sjúkraþjálfurum var óheimilt að hætta að starfa samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands þann 12. nóvember síðastliðinn samkvæmt niðurstöðu gerðardóms og ber að starfa áfram samkvæmt samningnum til 12. janúar nk. Sjúkraþjálfurum var því óheimilt að innheimta önnur gjöld af sjúklingum en þau sem kveðið er á um í samningi SÍ. Þeim sjúklingum sem hefur verið gert að greiða sjúkraþjálfurum önnur gjöld en samningur SÍ kveður á um er því bent á að hafa samband við viðkomandi sjúkraþjálfara um endurgreiðslu. 

Gerðardómur, sem skipaður var sérstaklega til að leysa úr ágreiningi milli Sjúkratrygginga Íslands og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, hefur í dag hafnað þeim skilningi sjúkraþjálfara að þeim væri heimilt að hætta að starfa eftir rammasamningi SÍ frá og með 12. nóvember eins og gert var og að þeim beri að fara eftir ákvæðum rammasamningsins fram til 12. janúar nk. 

Samkvæmt innkaupaferli sem nú er í gangi um kaup á þjónustu sjúkraþjálfara á að skila inn tilboðum þann 15. janúar 2020. Það er því von SÍ að fljótlega eftir það verði komnir á samningar milli aðila. 

Nánari upplýsingar veitir forstjóri SÍ.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica