Flutningur S-merktra og leyfisskyldra lyfja til Landspítala
Með ákvörðun heilbrigðisráðherra hefur verið ákveðið að færa fjárhagslega ábyrgð og umsýslu S-merktra og leyfisskyldra lyfja frá Sjúkratryggingum Íslands til Landspítala. Með þessu er verið að færa saman faglega og fjárhagslega ábyrgð á meðferð og notkun þessara lyfja ásamt innleiðingu og notkun nýrra og dýrra lyfja í landinu. LSH var falið að útfæra yfirfærslu verkefnisins í samvinnu við SÍ og aðrar heilbrigðisstofnanir. Ákveðið var að breytingin skyldi taka gildi frá og með 1. janúar s.l.
Í gildi er rammasamningur milli SÍ og annars vegar birgja og hins vegar lyfsala um fyrirkomulag pantana og afgreiðslu lyfjanna. Einnig eru í gildi samningar við heilbrigðisstofnanir um greiðslu fyrir lyfjameðferðir. Fyrst um sinn verður engin breyting á því fyrirkomulagi sem snýr að apótekum en þau munu áfram afhenda hinum sjúkratryggða lyf eins og kveðið er á um í rammasamningnum. Birgjar og heilbrigðisstofnanir eru hins vegar farnar að snúa sér til Landspítala vegna þessara lyfja.