Droplaugarstaðir fá gæðavottun ISO 9001 fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi

3.6.2020

  • Droplaugastadir-1

Nú á dögunum tóku Droplaugarstaðir á móti ISO 9001 gæðavottun en þjónusta á hjúkrunarheimilinu byggir á þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands. Hjúkrunarheimilið er fyrst íslenskra hjúkrunarheimila að fá þessa alþjóðlegu gæðavottun sem um leið er viðurkenning á öryggi þjónustunnar, vönduðum vinnubrögðum og gæðum. 

Með því að öðlast alþjóðlega vottun samkvæmt staðlinum hafa Droplaugarstaðir sýnt fram á að þar er unnið í samræmi við alþjóðlegar kröfur um gæðastarf. Með kerfinu eru stöðugar umbætur í starfsemi heimilisins með virkri þátttöku stjórnenda og starfsmanna í að viðhalda gæðum þjónustunnar. Árangur í starfi er mældur reglubundið og fylgst er með starfseminni frá hlutlausum þriðja aðila.

Forstjóri Sjúkratrygginga Íslands var viðstaddur afhendingu vottunarinnar, ásamt landlækni og borgarstjóra. Forstjóri þakkaði stjórnendum Droplaugarastaða fyrir að sýna frumkvæði að því að öðlast gæðavottun og vera þannig fyrirmynd annarra veitenda heilbrigðisþjónustu hvað nýsköpun og gæðaþróun þjónustu varðar.

Viðurkenningin til Droplaugarstaða er veitt af BSI á Íslandi ehf. í nafni BSI Assurance (British Standards Institution) sem er viðurkenndur vottunaraðili til úttekta. ISO 9000 staðlarnir eru fyrir öll fyrirtæki óháð því hvaða starfsemi fer þar fram en staðlarnir eru ávallt merki um gæði í stjórnun og rekstri. Þetta er vinsælasti alþjóðastaðall fyrir rekstur fyrirtækja og stofnanna. ISO 9000 er öflugt verkfæri til að ná enn betri árangri. Það eru yfir milljón fyrirtæki og stofnanir í yfir 170 löndum sem hafa fengið slíka vottun.

Droplaugastadir-2

Droplaugastadir-1

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica