Dómur í máli SÁÁ gegn íslenska ríkinu.

6.10.2017

Þann 5. október sl. féll dómur í Hæstarétti í máli SÁÁ gegn íslenska ríkinu.  Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. júní 2016 og sýknaði íslenska ríkið af kröfum SÁÁ.  

Málið snerist um túlkun á samningi milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og SÁÁ, frá 21. desember 2012, um áfengis- og vímuefnameðferð á göngudeild SÁÁ.  Tilgreint var í samningum að hann skyldi gilda frá 1. janúar til 31. desember 2013 en hefði nýr samningur ekki komist á við lok samningstíma skyldi starfað áfram eftir honum á meðan báðir aðilar samþykktu það.

SÁÁ kröfðu SÍ um tiltekna fjárhæð sem samtökin töldu sig eiga rétt á, á grundvelli samningsins. Voru aðilar annars vegar ósammála um hvernig skýra bæri orðið hópmeðferð í samningnum og hins vegar hvort SÍ hefði verið heimilt að segja samningnum upp með þeim hætti sem gert var, þ.e. með fjögurra mánaða fyrirvara.

Hvað varðar túlkun á því hvað fælist í hópmeðferð þá taldi Hæstiréttur að líta yrði svo á að tiltekið fylgiskjal hefði verið hluti af samningnum enda er vísað til fylgiskjalsins í tveimur greinum hans.  Í samningnum var gengið út frá að hópmeðferð tæki allt að þremur klst., og áttu SÁÁ að fá ákveðna greiðslu fyrir hana, en í fylgiskjalinu kom fram að SÍ og sjúklingar skyldu greiða hlutfall af greiðslunni ef meðferð væri styttri (t.d. 1 eða 2 klst.). SÁÁ gerðu kröfu um fulla greiðslu fyrir hópmeðferð þó hún hefði ekki staðið yfir í þrjár klst. Hæstiréttur sagði túlkun samninga fyrst og fremst ráðast af skýringu á orðum þeirra og samhengi orða. Ekki væri unnt að skýra texta samningsins á annan veg en þann að hver hópmeðferð þyrfti að taka allt að þrjár klukkustundir til þess að skylt væri að greiða fullt gjald fyrir hana en stæði hún skemur stofnaðist aðeins réttur til hlutfallslegrar greiðslu.  

Hvað varðar uppsögn SÍ á samningnum þá taldi Hæstiréttur að SÍ hefði verið heimilt að segja samningnum upp með fjögurra mánaða fyrirvara, enda hefði uppsagnarfresturinn verið hæfilegur miðað við efni samningsins og önnur atvik. 

SÁÁ voru dæmd til að greiða íslenska ríkinu 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica