Brynhildur S. Björnsdóttir nýr stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands

10.5.2017

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur skipað Brynhildi S. Björnsdóttur formann stjórnar Sjúkratrygginga Íslands. Fyrsti fundur nýs formanns með stjórn stofnunarinnar verður haldinn í dag.

Brynhildur tekur við stjórnarformennskunni af Hákoni Stefánssyni lögfræðingi, en hann tekur sæti sem aðalmaður í stjórninni. Brynhildur er framkvæmdastjóri hjá GG Verk ehf. Hún er með menntun á sviði stjórnunar og stefnumótunar. Hún sótti nám í Harvard Business School árið 2016, lauk MSc. gráðu frá Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótun árið 2009 og BA frá Háskólanum á Bifröst í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði árið 2007. Hún var stjórnarformaður Bjartrar framtíðar 2015-2016 og hefur átt sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð.

Heilbrigðisráðherra skipar stjórn Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Hlutverk hennar er að staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun og marka henni langtímastefnu. Stjórnin skal hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar og að rekstur hennar sé innan ramma fjárlaga á hverjum tíma. 

Formaður stjórnar Sjúkratrygginga Íslands skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og gera honum viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur hennar og greiðslur til sjúkratryggðra eru ekki í samræmi við fjárlög. 

Stjórnin er nú þannig skipuð:

  • Brynhildur S. Björnsdóttir, M.Sc í stjórnun og stefnumótun, formaður
  • Berglind Hallgrímsdóttir, verkfræðingur
  • Til vara: Jónína Guðmundsdóttir, mannauðsráðgjafi
  • Hákon Stefánsson, lögfræðingur
  • Til vara: Guðjón Bjarni Hálfdánarson, lögfræðingur
  • Guðmundur Magnússon, rekstrarverkfræðingur
  • Til vara: Vífill Karlsson, hagfræðingur
  • Birna Kr. Svavarsdóttir, hjúkrunarfræðingur
  • Til vara: Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur.
Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica