Breytt fjármögnun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

23.3.2017

Nýtt fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu tók gildi um síðustu áramót. Samkvæmt því eiga allir sjúkratryggðir að vera skráðir á heilsugæslustöð eða hjá sjálfstætt starfandi heimilislækni. Heilsugæslustöðvar fá greitt fyrir hvern einstakling sem skráður er á stöðina og taka greiðslur m.a. mið af aldurssamsetningu og sjúkdómsbyrði. Einnig er sérstaklega greitt fyrir þætti sem stuðla að bættri þjónustu og auknum gæðum. Ef einstaklingur ákveður að færa sig á milli stöðva flyst fjármagn sem greitt er vegna hans yfir á nýja stöð. Stefnt er að því að taka síðar upp sama fjármögnunarkerfi fyrir landið allt.

Einstaklingurinn ræður því sjálfur á hvaða heilsugæslustöð hann er skráður og er honum því ekki skylt að vera skráður á þá stöð sem er næst lögheimili. Með þessu myndast hvati hjá heilsugæslustöðvum að bjóða upp á góða og einstaklingsmiðaða þjónustu.

Í lok nóvember sl. voru rúmlega 21 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu ekki skráðir á heilsugæslustöð eða hjá heimilislækni. Við innleiðingu nýja kerfisins voru þeir allir skráðir á heilsugæslustöð. Þessum einstaklingum var gefinn kostur á að velja sér heilsugæslu og skrá sig þar sem þeir vildu en þeir sem ekki nýttu sér það voru skráðir á þá stöð sem var næst lögheimili þeirra. Allir sjúkratryggðir íbúar á höfðuborgarsvæðinu, um 205 þúsund manns, voru því skráðir á heilsugæslustöð í byrjun árs 2017. Margar stöðvanna hafa einnig gert átak í því að tilgreina heimilislækni fyrir hvern þann sem skráður er á stöðina og gefa einstaklingum kost á að velja sér sinn lækni.

 Í byrjun árs 2017 voru 17 heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og 12 sjálfstætt starfandi heimilislæknar. Tvær nýjar stöðvar verða síðan opnaðar síðar á árinu. Fjölmennasta stöðin er heilsugæslustöðin að Sólvangi í Hafnarfirði með rúmlega 17 þúsund skráða skjólstæðinga.

Heilsugæslustöðvar Fjöldi skráðra í mars 2017
Heilsugæslan Árbæ 16.845
Heilsugæslan Efra Breiðholti 11.330
Heilsugæslan Efstaleiti 8.910
Heilsugæslan Fjörður 11.208
Heilsugæslan Garðabæ 12.580
Heilsugæslan Glæsibæ 8.589
Heilsugæslan Grafarvogi 15.018
Heilsugæslan Hamraborg 10.551
Heilsugæslan Hliðum 10.302
Heilsugæslan Hvammi 10.060
Heilsugæslan Miðbæ 11.192
Heilsugæslan Mjódd 9.732
Heilsugæslan Mosfellsumdæmi 10.056
Heilsugæslan Seltjarnarnesi 16.613
Heilsugæslan Sólvangi 17.409
Salastöð Kópavogi 15.699
Heilsugæslan Lágmúla 8.888
Samtals skráðir á heilsugæslustöð: 204.982

Sem fyrr segir er öllum frjálst að breyta skráningu sinni á heilsugæslustöð og velja þá stöð, eða sjálfstætt starfandi heimilislækni, sem hentar best. Auðvelt er að að breyta skráningu í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands , á sjukra.is.

Til að skrá sig inn í Réttindagátt þarf að nota rafræn skilríki eða íslykil og eru allir hvattir til að kynna sér hana.  Ásamt því að geta skoðað skráningu sína á heilsugæslu og breytt henni er þar að finna yfirlit yfir kostnað og greiðslustöðu vegna heilbrigðisþjónustu sem fellur undir sjúkratryggingarnar. Eftir að nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi 1. maí nk. geta allir sjúkratryggðir fundið í Réttindagáttinni upplýsingar um það hver kostnaðarþátttaka þeirra á að vera vegna heilbrigðisþjónustu.

 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica