Breyting varðandi útgáfu Evrópska sjúkratryggingakortsins (ES kortið)

9.4.2015

  • Evrópska sjúkratryggingakortið

Frá og með 15. maí nk. verður eingöngu hægt að sækja um evrópska sjúkratryggingakortið (ES kortið) á vef Sjúkratrygginga Íslands (SÍ), í Réttindagátt einstaklinga. Kortið verður sent á lögheimili einstaklinga og ekki verður hægt að sækja kort í Þjónustuver SÍ á Vínlandsleið. 

Ef einstaklingar sækja of seint um kort eða hafa glatað korti þá verður hægt að sækja um bráðabirgðakort á sama stað, í Réttindagátt einstaklinga.

Almennt um ES kortið

Evrópska sjúkratryggingakortið er notað ef korthafi veikist eða slasast í öðru EES landi. Það staðfestir rétt ferðamanna og námsmanna til heilbrigðisþjónustu sem nauðsynleg er meðan á tímabundinni dvöl í öðru EES landi stendur. Kortið gildir í öllum löndum EES og Sviss og gildir almennt í 3 ár en 5 ár hjá lífeyrisþegum.

Þegar kortinu er framvísað greiða einstaklingar fyrir þá þjónustu, sem þeir þurfa á að halda, eins og sjúkratryggðir einstaklingar í því landi sem þeir eru staddir.

Ríkisborgarar Íslands og annarra EES landa sem eru búsettir og sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að fá evrópska sjúkratryggingakortið.

Evrópska sjúkratryggingakortið gildir eingöngu hjá þjónustuveitendum sem hafa samninga við hið opinbera í viðkomandi landi en ekki þar sem þjónusta er einkarekin. 

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica