Bætt tannlæknaþjónusta við aldraða og örorkulífeyrisþega

13.7.2018

Sjúkratryggingar Íslands vekja athygli á fyrirhugaðri gerð rammasamnings um tannlækningar aldraðra og öryrkja. Samningurinn tekur til almennra tannlækninga (annarra en tannréttinga) fyrir aldraða og öryrkja sem sjúkratryggðir eru á Íslandi. Í því fellst m.a. skoðun, röntgenmyndataka, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannvegslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi. Tannplantar og föst tanngervi eru styrkt upp að vissu marki.

Fyrirhugað er að rammasamningurinn taki gildi 1. september 2018 og verði til þriggja ára, með möguleika á tveggja ára framlengingu. Áætlað virði samningsins á samningstímanum eru 15,6 milljarðar króna að teknu tilliti til tveggja ára framlengingar hans.

Drög rammasamningsins munu birtast á eftirfarandi vefsíðu eigi síðar en 17. júlí nk., en Sjúkratryggingar Íslands áskilja sér þó rétt til að gera lagfæringar á þeim þyki ástæða til þess: http://www.sjukra.is/heilbrigdisstarfsfolk/innkaup-a-heilbrigdisthjonustu/fyrirhugud-kaup/

Tannlæknar og tannlæknastofur með viðeigandi starfsleyfi og tryggingar skv. íslenskum lögum geta óskað eftir að gerast aðilar að samningnum til og með 24. ágúst 2018, með því að senda þátttökutilkynningu til Ómars Olgeirssonar (omar.olgeirsson@sjukra.is) á þar til gerðu eyðublaði. Eyðublaðið verður birt á ofangreindri vefsíðu sama dag og samningsdrögin. Þar er m.a. óskað eftir upplýsingum um fjölda skjólstæðinga sem geta verið á skrá hjá viðkomandi tannlækni/tannlæknastofu og fengið tannlæknaþjónustu skv. samningnum.

Fyrirspurnir vegna þessa sendist á  tannlaeknasamningur@sjukra.is. Svör við fyrirspurnum birtast á ofangreindri vefsíðu.“

SÍ áskilja sér rétt til að auglýsa síðar eftir nýjum tannlæknum/tannlæknastofum og auknum fjölda skjólstæðinga hjá þeim sem aðilar eru að samningnum. Samningurinn kann því að verða opinn fyrir fleiri umsóknum eftir 1. september 2018, en þó ekki nema að undangenginni auglýsingu þar um.

Nánari upplýsingar má finna í forauglýsingu sem birtist í viðbæti við stjórnartíðindi Evrópusambandsins (TED) í júlí 2018:

https://ted.europa.eu/udl?uri=TED:NOTICE:310022-2018:TEXT:EN:HTML

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica