Áramótapistill forstjóra

30.12.2021

Nú líður að lokum ársins 2021 sem sannarlega hefur verið viðburðaríkt hjá Sjúkratryggingum Íslands. Covid-19 faraldurinn hefur sett sinn svip á flest verkefni Sjúkratrygginga en ekki síst þó á starf samningadeildar og annarra sem koma beint að samskiptum við veitendur heilbrigðisþjónustu.

Á árinu 2021 gerðu Sjúkratryggingar vel á þriðja tug samninga um kaup á þjónustu í tengslum við faraldurinn. Þessi verkefni hafa mörg hver borið brátt að enda krefst baráttan við veiruna snöggra viðbragða. Rétt eins og margir aðrir eru Sjúkratryggingar að læra hvernig best er að haga hlutunum í þessum nýja veruleika sem faraldurinn hefur skapað. Þjónustuaðilarnir sem stofnunin hefur samið við hafa allir sýnt einstakan sveigjanleika, útsjónarsemi og fagmennsku, oft og tíðum undir erfiðum kringumstæðum. Fyrir þetta eru Sjúkratryggingar afar þakklátar, enda um bráðnauðsynlega þjónustu við landsmenn að ræða.

Hér á eftir fer stutt umfjöllun um helstu samninga sem Sjúkratryggingar hafa gert vegna Covid faraldursins á síðustu tveimur árum.

Fyrst ber að telja fjölda samninga sem Sjúkratryggingar hafa gert um rekstur sóttkvíarhótela og farsóttarhúsa víða um land. Fjölmargir hafa lagt þessu verkefni lið og verðskulda fyrir það þakkir. Sérstaklega má nefna sjálfboðaliða og starfsmenn Rauða kross Íslands en þeir hafa unnið einstakt starf í þágu þjóðarinnar og fyrir það verður seint fullþakkað. Samtökin hafa tekið að sér að veita þeim sem dvelja í sóttkvíarhótelum og farsóttarhúsum nauðsynlega þjónustu og gera dvöl þeirra sem þægilegasta. Fjöldi rekstraraðila gististaða hafa boðið fram aðstöðu til leigu og útvegað starfsfólk vegna þessa rekstrar. Þá hefur geðteymi frá Landspítalanum veitt bæði gestum og starfsmönnum stuðning og þjónustu og Læknavaktin hefur sinnt vitjunum til gesta og sýnatöku ásamt heilsugæslunni og heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið. Einnig má nefna fjölmörg fyrirtæki sem sinnt hafa margvíslegri þjónustu, svo sem öryggisvörslu, veitingaþjónustu, og ræstingum. Öll hafa þessi sóttkvíarhótel og farsóttarhús verið rekin í góðu samstarfi við lögreglu og almannavarnir.

Samhliða rekstri sóttkvíarhótela og farsóttarhúsa hefur verið samið um flutning gesta af flugvelli í þessi úrræði, til sýnatöku og svo framvegis. Einnig hefur nýlega verið samið um akstur þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun en þurfa ekki á sjúkrabíl að halda. Með þessu er álagi létt af sjúkraflutningamönnum á höfuðborgarsvæðinu sem áður önnuðust þessa flutninga.

Sjúkratryggingar hafa einnig samið við heilbrigðisstofnanir víða um land um að sinna sýnatöku á landamærum, hvort sem um er að ræða flugvelli eða hafnir.

Samið var við sjálfstætt starfandi ljósmæður um að sinna fimm daga skoðunum nýbura í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu tímabundið til að draga úr smithættu sem fylgt getur heimsóknum á sjúkrahús.

Sjúkratryggingar sömdu við hjúkrunarheimilið Eir um rekstur sérstakrar hjúkrunardeildar fyrir aldraða sem eru smitaðir af Covid og geta ekki dvalið á eigin heimili en þurfa ekki á sjúkrahúsvist að halda. Verkefnið hefur verið unnið í góðu samstarfi við Landspítalann og hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu.

Til að létta álagi af Landspítala sömdu Sjúkratryggingar við Reykjalund um rekstur legudeildar fyrir sjúklinga sem þarfnast endurhæfingar og sólarhringshjúkrunar.

Samið var við Reykjalund og Heilsustofnunina í Hveragerði um sérhæfða endurhæfingu sjúklinga sem þurfa á slíku að halda eftir að hafa sýkst af Covid. Verkefnið byggir á góðu samstarfi bæði við heilsugæsluna og Covid göngudeild Landspítala.

Síðast en ekki síst má nefna samninga Sjúkratrygginga við tvær einkareknar læknastöðvar um að útvega lækna og hjúkrunarfræðinga til að styrkja mönnun Landspítala tímabundið sumarið 2021. Þessir aðilar brugðust einstaklega vel við þegar óskað var eftir þessari aðstoð með stuttum fyrirvara.

Þegar þetta er skrifað stefnir í að Sjúkratryggingar hafi gert alls tæplega 60 samninga (að Covid tengdum samningum meðtöldum) um fjölþætta þjónustu á árinu 2021. Fjöldi samninga er einn mælikvarði á árangur í starfi stofnunarinnar en til að setja þetta í samhengi má nefna að árið 2018 gerðu Sjúkratryggingar alls um 25 samninga og árið 2019 voru þeir alls 37. Heildarfjöldi samninga árið 2020, að Covid-tengdum samningum meðtöldum, var 46. Hér er eingöngu vísað til nýrra samninga, ekki viðauka, framlenginga og svo framvegis. Ef slík verkefni væru talin með þá stefnir heildarfjöldi staðfestra samkomulaga í 350 á árinu 2021. Það samsvarar því að undirritað sé nálega eitt samkomulag hvern einasta dag ársins. Auðvitað er ekki hægt að bera saman árangur í samningagerð eingöngu með því að líta á fjölda samninga. Sumir eru einfaldir í sniðum, aðrir mjög viðamiklir og flóknir. Engu að síður er ástæða til að benda á árangur starfsmanna Sjúkratrygginga við að ganga frá sívaxandi fjölda samninga á síðustu misserum, auðvitað í góðu samstarfi við fjölbreyttan hóp samstarfsaðila.

Það er ekki aðeins umfang samningagerðar sem hefur vaxið síðustu ár. Með auknum fjárframlögum til heilbrigðisþjónustu og aukinni greiðsluþátttöku hins opinbera í heilbrigðisþjónustu hefur það fjármagn sem rennur í gegnum Sjúkratryggingar stóraukist. Endanlegar tölur fyrir árið 2021 liggja ekki fyrir en gróflega áætlað má reikna með að nálega 114 milljarðar króna hafi með einum eða öðrum hætti runnið í gegnum Sjúkratryggingar í hendur veitenda eða notenda heilbrigðisþjónustu. Á föstu verðlagi er þetta tæplega 17% meira fé en fór í gegnum stofnunina fyrir fimm árum, árið 2017. Til þess að þetta fé skili sér til notenda og veitenda þjónustu afgreiða starfsmenn Sjúkratrygginga yfir 20 þúsund greiðslufærslur á hverjum virkum degi sem jafngildir um það bil sex milljón færslum á ári. Fyrir hverja og eina slíka færslu þarf að fara fram mat á réttindum til þátttöku hins opinbera í kostnaði við viðkomandi heilbrigðisþjónustu, lyf, hjálpartæki o.s.frv.

Umsýsla fjölbreyttra hjálpartækja er stór þáttur í starfi Sjúkratrygginga. Þar er um að ræða allt frá einnota strimlum til blóðsykursmælinga upp í flókinn tjáskiptabúnað. Starfsmenn SÍ annast innkaup, viðhald, og viðgerðir hjálpartækja og þjóna ört vaxandi hópi notenda en þeim hefur fjölgað um ríflega 20% á síðustu fimm árum. Bein samskipti við notendur þjónustu Sjúkratrygginga í síma eða í þjónustuveri eru nú í kringum 200 á dag.

Faraldurinn knúði starfsfólk Sjúkratrygginga líka til að breyta því hvernig við vinnum okkar daglegu störf en stærstum hluta verkefna stofnunarinnar var sinnt í fjarvinnu að meira eða minna leyti á árinu. Það kom á óvart hve vel er hægt að sinna flestum störfum með þessum hætti, allt frá símsvörun til samningagerðar. Þau sem annast staðbundin verkefni, svo sem viðhald og viðgerðir hjálpartækja, stóðu vaktina áfram á vinnustaðnum og tókst að forðast smit með því að viðhafa ítrustu sóttvarnir.

Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu verkefni Sjúkratrygginga á árinu sem er að líða. Engin leið er að gera í stuttu máli grein fyrir öllum þeim verkefnum sem innt eru af hendi stofnunarinnar dag hvern. Þessi einfalda upprifjun sýnir þó, svo ekki verður um villst, það afl sem býr í starfsmönnum Sjúkratrygginga og endurspeglar þá mikilvægu þjónustu sem stofnunin veitir íbúum landsins.

Sjúkratryggingar Íslands þakka fyrir árið sem er að líða og óska öllum landsmönnum gleðilegs árs.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica