Aðgangur forsjáraðila að réttindagátt barns

17.8.2016

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa bætt aðgang að réttindagátt barna. Nú geta þeir forsjáraðilar sem eru ekki með skráð sama lögheimili og barn, sótt um aðgang að upplýsingum um barnið í Réttindagátt  (mínar síður).  Þar er nýr efnisflokkur undir „Umsóknir“ sem ber heitið „Forsjárforeldrar“. Þar er hægt að fylla út allar nauðsynlegar upplýsingar og senda umsóknina til afgreiðslu hjá SÍ.

Hinum forsjáraðilanum verður þá greint frá umsókninni og honum gefinn kostur á að koma fram athugasemdum sínum ef einhverjar eru, innan 2 vikna. Ef engar athugasemdir berast og öll gögn eru fullnægjandi, mun umsóknin vera samþykkt og aðgangur veittur að réttindagátt barns í kjölfarið. Ef athugasemdir hins vegar berast innan frestsins er það hlutverk lögfræðinga SÍ að skera úr um hvort heimila skuli umbeðinn aðgang eða synja umsókninni.

Framkvæmdin fyrir breytinguna var sú að skráningar í réttindagátt SÍ miðaði eingöngu við skráningu í Þjóðskrá og upplýsingar um barn birtar í gáttinni hjá þeim sem skráður er fyrir fjölskyldunúmerinu hverju sinni, þ.e. kennitölu elsta einstaklingsins á lögheimili barnsins. Það þýðir að forsjáraðilar sem ekki eru með skráð sama lögheimili og barnið sitt gátu ekki nálgast upplýsingar í réttindagátt barnsins né skráð heimilislækni eða heimilistannlækni fyrir barnið.  

Hægt er að nálgast umsóknareyðublað um aðgang að réttindagátt barns í Réttindagátt (mínar síður einstaklinga á www.sjukra.is). Innskráning í gáttina fer fram með rafrænum skilríkjum eða með Íslykli.

Þeir sem óska frekari upplýsinga eða lenda í vandræðum með útfyllingu umsóknar er bent á að senda fyrirspurn á netfangið forsja@sjukra.is.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica