Slysabætur

Greiddur er nauðsynlegur kostnaður vegna lækninga hins slasaða svo sem vegna:

  • læknishjálpar
  • dvalar á sjúkrastofnun
  • lyfja og umbúða
  • sjúkraþjálfunar
  • sjúkraflutnings slasaðs einstaklings
  • gervilima og svipaðra hjálpartækja
  • hjúkrunar í heimahúsum
  • tannviðgerða
  • ferðakostnaðar innanlands

Hvernig er sótt um slysabætur?

Lendi einstaklingur í slysi sem hann telur eiga undir slysatryggingar almannatrygginga þá er fyrsta skrefið að fylla út eyðublaðið „Tilkynning um slys“ og koma því til Sjúkratrygginga Íslands eða umboðsmanna stofnunarinnar um land allt. Gæta þarf að því að umsóknin sé vel út fyllt og að nauðsynleg fylgigögn berist með henni.

Hjá Sjúkratryggingum er umsóknin yfirfarin. Ef þörf er á er kallað eftir frekari upplýsingum/gögnum. Þegar öll nauðsynleg gögn hafa borist er afstaða tekin til bótaskyldu.

Þegar fallist hefur verið á að um bótaskylt slys samkvæmt almannatryggingalögum sé að ræða er hinn slasaði upplýstur um rétt sinn til greiðslu bóta. Bætur slysatrygginga eru sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur.

Sjúkrahjálp

Ef um útlagðan kostnað er að ræða er fyllt út eyðublaðið „Endurgreiðsla sjúkrakostnaðar vegna slysatrygginga“ og sent stofnuninni. Sjúkrakostnaður sem tengist slysinu er endurgreiddur í samræmi við reglur þar að lútandi.

Greitt er eftir frumritum reikninga. Ef frumrit eru glötuð er að jafnaði heimilt að greiða eftir afriti reiknings ef staðfesting á greiðslu fylgir.

Ekki er réttur til endurgreiðslu reikninga sem hafa verið eða verða endurgreiddir hjá tryggingafélagi, stéttarfélagi eða öðrum aðilum. Fari greiðsla samkvæmt afriti reiknings fram á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga má búast við því að greiðsla verði endurkrafin, að viðbættum dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015.

Með lagabreytingu, sem tók gildi 1. janúar 2014, var þak sett á greiðslu sjúkrakostnaðar vegna bótaskyldra slysa og greiðist kostnaður vegna sjúkrahjálpar í allt að fimm ár frá slysdegi. Í sérstökum tilfellum er þó heimilt að greiða kostnað sem fellur til í allt að tíu ár frá slysdegi. Þessi breyting gildir aðeins um slys sem verða 1. janúar 2014 eða síðar. Breytingin kemur því ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2019. (Sjá 48. gr. laga nr. 140/2013 frá 27. desember 2013).

Dagpeningar

Sé um að ræða óvinnufærni í minnst 10 daga vegna slyss eru slysadagpeningar greiddir eftir því sem við á, vinnuveitanda eða hinum slasaða.  Slysadagpeningar eru greiddir frá og með 8. degi, þó ekki lengur en í 52 vikur.

Örorkubætur

Telji hinn slasaði sig hafa orðið fyrir varanlegu tjóni vegna slyssins þarf hann að óska eftir örorkumati. Örorkumat er framkvæmt þegar stöðugleika er náð og ekki er að vænta frekari bata.

Dánarbætur

Ef slys veldur dauða innan tveggja ára frá því það átti sér stað greiðast dánarbætur. Bæturnar greiðast eftirlifandi maka og börnum, eða til dánarbús.


Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica