Málsmeðferð umsókna

Umsóknir um bætur úr sjúklingatryggingu krefjast ítarlegrar skoðunar og gagnaöflunar. Að jafnaði má búast við að niðurstaða um bótaskyldu liggi fyrir innan sex til tólf mánaða frá því að Sjúkratryggingar hafa aflað allra nauðsynlegra gagna. Ef mál eru sérstaklega umfangsmikil eða erfiðlega gengur að afla gagna má þó búast við að málsmeðferðin taki lengri tíma. Ef um mat á örorku er að ræða þarf að hafa í huga að slíkt mat getur ekki farið fram fyrr en ástand sjúklings er orðið stöðugt og ekki er að vænta frekari bata. Að jafnaði má búast við niðurstöðu þess sex til tólf mánuðum eftir að ákvörðun um bótaskyldu liggur fyrir.

Kostnaður vegna aðstoðar lögmanns

Umsækjanda er í sjálfsvald sett hvort hann leitar aðstoðar lögmanns eða ekki en hann verður jafnan að bera kostnað af þeirri aðstoð sjálfur.

Lög um sjúklingatryggingu gera ekki ráð fyrir að umsækjandi þurfi lögmannsaðstoð og því greiða Sjúkratryggingar Íslands ekki lögmannskostnað.

Öll vinna við málið, svo sem gagnaöflun, mat á örorku, bótaútreikningur og fleira fer því fram innan Sjúkratrygginga og því þarf umsækjandi almennt ekki að leita aðstoðar lögmanns til að gæta hagsmuna sinna. Í þessu sambandi er rétt að benda á að könnun sem Sjúkratryggingar gerðu í ágúst 2006 leiddi í ljós að það að líkur á að mál verði samþykkt aukast ekki þó að sjúklingur ráði sér lögmann.

Kæruleið

Ákvörðun Sjúkratrygginga um bótaskyldu og fjárhæð bóta má skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun berst umsækjanda eða umboðsmanni hans.  Heimilisfang nefndarinnar er að Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Hægt er að senda kæru rafrænt á vefsíðu nefndarinnar, www.urvel.is.

Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica