Hverjir geta átt rétt á bótum úr sjúklingatryggingu?

Sjúklingar sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð geta átt rétt á bótum úr sjúklingatryggingu. Sama gildir um þá sem missa framfæranda (maka eða barn undir 18 ára aldri missir foreldri) við andlát slíkra sjúklinga.

Skilyrði er að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum:

  • Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
  • Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
  • Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
  • Um er að ræða fylgikvilla meðferðar sem er tiltölulega sjaldgæfur og alvarlegur miðað við grunnsjúkdóm og tjónið er meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Við mat á þessu skal annars vegar líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni og er miðað við að fylgikvillinn verði að koma fyrir sjaldnar en í 1-2% tilfella.

Einnig eru tryggðir þeir sem gangast undir læknisfræðilega tilraun sem er ekki liður í sjúkdómsgreiningu eða meðferð á sjúkdómi einstaklingsins. Einnig þeir sem gefa vef, líffæri, blóð eða annan líkamsvökva. 

Sérstök athygli er vakin á því að sjúklingatrygging bætir ekki heilsutjón sem er afleiðing lyfjameðferðar nema umrætt lyf hafi ekki verið gefið á réttan hátt eða það hefði verið unnt að beita annarri meðferðaraðferð.


Til baka

 


Language:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica